Finna fé á lífi í fönn á áttunda degi

Frá smölun á Þeistareykjasvæðinu í síðustu viku.
Frá smölun á Þeistareykjasvæðinu í síðustu viku. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ærnar voru orðnar dasaðar, en lömbin voru nokkuð spræk,“ segir Böðvar Baldursson, bóndi í Heiðargarði í Aðaldal, sem fann fjórar kindur í dag grafnar í fönn. Þær voru búnar að vera fastar þar í átta daga.

Bændur á snjóasvæðunum á Norðausturlandi hafa í dag verið að leita að fé í heimalöndum. Ekkert hefur verið farið upp á afréttinn á Þeistareykjum, en þar er leiðindaveður, slydda og dimmt yfir. Böðvar á ekki von á að reynt verði að smala Þeistareykjasvæðið fyrr en á fimmtudag, en þá er spáð suðlægum áttum og betra veðri.

Böðvar var í dag að leita að fé í giljum ofan við bæinn. Hann segir að mjög gagnlegt sé að vera með hunda í leitinni. Þeim hafi tekist að finna þær kindur sem fundust í dag. Þær voru á tæplega metra dýpi. Böðvar segir að snjórinn sé blautur og erfiður yfirferðar.

Vitað er um talsvert af fé uppi á Þeistareykjasvæðinu sem ekki tókst að reka niður af heiðinni um síðustu helgi. Bændur eru ekki komnir með yfirlit um hversu margt fé drapst í óveðrinu, en á Alþingi í dag kom fram að búið væri að finna á annað hundrað dauðar kindur í Þingeyjarsýslu og 300-400 í Skagafirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert