Björn afþakkar launahækkunina

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans.
Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Ernir

Með hagsmuni Landspítala að leiðarljósi hefur orðið að samkomulagi milli Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra og Björns Zoëga, forstjóra Landspítala, að falla frá breytingu á starfskjörum Björns sem hefði að óbreyttu komið til framkvæmda um næstu mánaðamót. Björn segir að hann hafi afþakkað kjarabreytinguna í ljósi þeirra miklu deilna sem sprottið hafi í kjölfarið. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá velferðarráðuneytinu.

Velferðarráðherra segist hafa tekið ákvörðunina um breytt starfskjör Björns þar sem hann taldi óskynsamlegt að skipta um forstjóra við núverandi aðstæður ef hjá því yrði komist. Það væru mikilvægir hagsmunir Landspítala við erfiðar aðstæður að rjúfa ekki samfellu í stjórnun hans með mannabreytingum og þess vegna mikið í húfi að forstjórinn héldi áfram: „Björn hefur sýnt að hann er sérstaklega hæfur stjórnandi og ötull talsmaður hagsmuna sjúklinga og sjúkrahússins sjálfs og afstaða mín byggðist ekki síst á því,“ er haft eftir Guðbjarti í frétt ráðuneytisins.

Í samkomulaginu fólst að Björn myndi sinna skurðlækningum á Landspítala í auknum mæli og fengi þar með greitt fyrir aukið vinnuframlag. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra leggur áherslu á að ekki hafi verið hróflað við úrskurði kjarraráðs um laun Björns þegar ákvörðun um breytt starfskjör var tekin. Samkomulagið hafi snúist um aukið vinnuframlag hans fyrir læknastörf, enda segi í úrskurði kjararáðs að sérstakar aðgerðir á sviði bæklunarskurðlækninga tilheyri ekki starfi hans sem forstjóra og heyri því ekki undir kjararáð.

Mikilvægt að stuðla að sáttum

„Samkomulagið við Björn um að gegna áfram forstjórastarfinu á Landspítalanum með auknu svigrúmi til að sinna læknisstörfum gerði ég í góðri trú þar sem ég taldi það þjóna best hagsmunum sjúkrahússins við núverandi aðstæður. Þetta mat reyndist ekki rétt og ég tel að umræður sem orðið hafa um málið opinberlega og viðbrögð starfsmanna og stéttarfélaga heilbrigðisstarfsfólks bendi til þess að engin sátt geti orðið um þessa ákvörðun.

Til að stuðla að sáttum í þágu Landspítala og þess mikilvæga starfs sem þar fer fram á hverjum degi var það sameiginleg niðurstaða okkar Björns að falla frá umræddu samkomulagi um breytt starfskjör. Hagsmunir Landspítalans verða að ganga fyrir eins og að var stefnt í upphafi,“ segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra, í frétt ráðuneytisins.

Einbeitum okkur að því sem við gerum best

Björn Zoëga segir að hann hafi afþakkað kjarabreytinguna í ljósi þeirra miklu deilna sem sprottið hafi í kjölfarið: „Ég hef verið einlægur í því hlutverki að leiða öflugan hóp starfsmanna Landspítala á miklum niðurskurðartímum. Eftir þessu starfi hefur verið tekið erlendis og mér hafa staðið til boða nokkur störf við að stýra stórum sjúkrahúsum í Evrópu. Þegar ég tilkynnti velferðarráðherra að ég ætlaði að segja upp störfum bauð hann mér að bæta við mig skurðlækningum og fá greitt fyrir það aukna vinnuframlag. Ég samþykkti þetta og um leið gerði ég kröfu um enn meiri stuðning við hin ýmsu verkefni LSH. Það var samþykkt. Ég taldi að með þessu yrðu um leið auknar líkur á að auðveldara yrði fyrir heilbrigðisstarfsfólk að sækja kjarabætur á næstunni. Ég hafði rangt fyrir mér hvað þann þátt varðar. Ég vona að með þessu móti skapist á ný friður á Landspítala og við getum farið að einbeita okkur að því sem við gerum best, en það er að hugsa um sjúklinga á spítalanum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert