Íbúar geri ráðstafanir til að draga úr tjóni

Kortið sýnir upptök jarðkjálfta á tímabilinu 14.-21. september 2012. Jarðskjálftar …
Kortið sýnir upptök jarðkjálfta á tímabilinu 14.-21. september 2012. Jarðskjálftar eru táknaðir með rauðum hringjum. Upptök jarðskjálfta yfir 4 að stærð eru táknuð með svörtum stjörnum. Sveru örvarnar ofarlega á kortinu sýna rekstefnuna og örvarnar við Flateyjarskaga sýna hreyfistefnuna um Húsavíkur-Flateyjarmisgengið. Einnig eru sýnd nokkur önnur misgengi á svæðinu með svörtum línum. Af vef Veðurstofunnar

Á síðustu dögum hafa mælst nokkrir jarðskjálftar af stærðinni 4 og yfir úti fyrir Norðurlandi. Þessir jarðskjálftar hafa fundist víða á Norðurlandi allt frá Sauðárkróki, Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík, Akureyri,  á Húsavík og nágrenni. Samkvæmt Veðurstofunni hafa alls á fimmta hundrað jarðskjálftar verið staðsettir síðan jarðskjálftahrinan hófst. Jarðskjálftar eru nokkuð algengir á þessu svæði og árin 1996 og 2004 voru svipaðar jarðskjálftahrinur í gangi. Erfitt er að segja fyrir hve lengi þessi skjálftahrina muni standa yfir né er hægt að útiloka fleiri skjálfta af stærðinni 4 eða yfir þá stærð.

Í tilkynningu frá Almannavörnum kemur fram að mikilvægt sé að íbúar á þekktum jarðskjálftasvæðum geri ráðstafanir til að draga úr tjóni vegna jarðskjálfta. Á vefsíðu almannavarnadeildarinnar má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr tjóni og  minnka hættu í jarðskjálftum Einnig má nálgast upplýsingar  um viðbrögð í jarðskjálftum og ýmsar hagnýtar leiðbeiningar.

Með því að skoða hvar á heimili eða vinnustað hættur leynast og valdið gætu tjóni í jarðskjálfta má gera ráðstafanir sem draga verulega úr tjóni. Hægt er að nálgast upplýsingar um varnir fyrir jarðskjálfta hér og viðbrögð hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert