Íslenskan næstverst stödd

Hætt er við því að enskan taki yfir.
Hætt er við því að enskan taki yfir. Friðrik Tryggvason

Niðurstöður viðamikillar könnunnar á stöðu 30 Evróputungumála sem gerð var í fyrra, benda til þess að tveir þriðju hlutar tungumálanna séu í hættu, þar sem þau nái ekki að fylgja hraðri þróun upplýsinga- og tölvutækni. Ef fer sem horfir, gætu þau orðið ónothæf á mikilvægum sviðum þjóðlífsins í framtíðinni.

Þetta kemur fram í skýrslum um niðurstöður könnunarinnar en þær eru alls þrjátíu talsins, ein fyrir hvert tungumál, og eru allar tvímála, þ.e. á viðkomandi tungumáli og ensku.

„Í skýrslunum er lögð áhersla á nauðsyn þess að vekja stjórnvöld og almenning til vitundar um þessa hættu og benda á mikilvægi máltækni og möguleika hennar til að auðvelda samskipti milli þjóða, og milli manns og tölvu,“ segir í tilkynningu frá Máltæknisetri.

Í íslensku skýrslunni kemur fram að íslenska er nærstverst stödd af málunum 30 á sviði máltækni en hvað þetta varðar stendur aðeins maltneska verra að vígi. „Reyndar hefur staða íslensku batnað aðeins á síðustu vikum með tilkomu nýs íslensks talgreinis og talgervils sem ekki voru tilbúnir þegar gengið var frá skýrslunni í vor,“ segir þó í tilkynningunni.

Í frétt Morgunblaðsins um niðurstöður könnunarinnar frá því í apríl, lýsir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands og stjórnarformaður Máltækniseturs, því hvernig hætt sé við því að enskan leggi undir sig fleiri og fleiri svið og ekki verði hægt að nota íslenskuna nema í takmörkuðum mæli í samskiptum við tölvur og tækni.

„Íslenska er illa búin undir framfarir í upplýsingatækni. Notkun tungunnar í upplýsingatækni er að aukast. Þeim fjölgar alltaf tölvunum sem hægt er að tala við og gefa ýmis fyrirmæli. Slík samskipti við tölvur munu fara fram á ensku í framtíðinni ef okkur tekst ekki að bæta stöðu íslenskunnar að þessu leyti,“ sagði Eiríkur.

Eiríkur verður með stutta kynningu á skýrslunni á málþingi sem Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur stendur fyrir í samvinnu við Máltæknisetur og mennta- og menningarmálaráðuneytið í Hátíðarsal Háskólans kl. 16-17 miðvikudaginn 26. september næstkomandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert