Kenna táknmál í þróunarlöndum

Vefurinn SignWiki býður uppá tárknmálsorðabók auk annars kennslu og fræðsluefnis …
Vefurinn SignWiki býður uppá tárknmálsorðabók auk annars kennslu og fræðsluefnis er varðar táknmál. Eggert Jóhannesson

Í tilefni af Evrópska tungumáladeginum efna stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Samtök tungumálakennara á Íslandi og Máltæknisetrið til dagskrár á morgun miðvikudag í hátíðarsal Háskóla Íslands.

Hátíðin ber yfirskriftina „Tungumál, tækni og tækifæri“ og þar verður fjallað um nýjar leiðir sem geta nýst í tungumálanámi. Meðal fyrirlesara verður Árný Guðmundsdóttir, ritstjóri vefsins SignWiki, en hún mun segja frá þróun þekkingarbrunns um táknmál fyrir vef og farsíma. Hugmyndin að baki SignWiki er að gera táknmál aðgengilegt fyrir heyrnarlausa og aðra, ekki síst í þróunarlöndunum.

„Upphafið að vefnum má rekja til vangaveltna um hvað væri hægt að gera í þágu heyrnarlausra í þróunarlöndunum þar sem við höfum verið að vinna. Það er búið að setja vefinn upp, hann er m.a. orðabók sem virkar á tölvur, spjaldtölvur og snjallsíma,“ segir Árný. Þegar er búið að setja vefinn upp hér á landi, í Tansaníu, Namibíu og til stendur að setja vefinn upp í Noregi og Færeyjum á næstunni. Inni á vefnum er orðabók og kennslu- og fræðsluefni. Auk þess má þar finna myndbönd með orðum. Þá er viðkomandi orð slegið inn og upp kemur myndband sem sýnir myndrænt hvernig á að tjá orðið á táknmáli. 

Vefurinn fór í loftið hér á landi í byrjun ársins og í sumar var hann settur upp bæði í Tansaníu og Namibíu. „Við höfðum verið að vinna í Namibíu í nokkur ár í samstarfi við Þróunarsamvinnustofnun Ísland. Þar höfum við unnið að því að styrkja undirstoðir gagnvart heyrnarlausum. Síðan þróuðum við hugmyndina hér heima, komum vefnum á laggirnar hér þar sem tækni og þekking er fyrir hendi,“ segir Árný.

Eins og áður segir er vefurinn kominn í loftið í áðurnefndum löndum þar sem innfæddir halda honum við, uppfæra og bæta. Eyrún segir að viðtökurnar bæði úti og heima hafi verið mjög góðar. „Vefurinn nýtist fólki sem er að læra táknmál, foreldrum og aðstandendum heyrnarlausra, kennurum og þeim sem vinna með heyrnarlausum auk alls almennings,“ segir Árný. Hugmyndasmiðir verkefnisins eru Davíð Bjarnason hjá Þróunarsamvinnustofnun auk Samskiptamiðstöðvarinnar.

Dagskráin hefst kl. 16 á morgun, miðvikudag, og fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands.

Hér má sjá vefinn SignWiki.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert