„Ólögmætar hótanir ESB“

Jón Bjarnason
Jón Bjarnason Ómar Óskarsson

Jón Bjarnason, þingmaður VG og fv. sjávarútvegsráðherra, telur Evrópusambandið ekki geta farið með refsiaðgerðir á hendur Íslendingum vegna makríldeilunnar. Sambandið hóti „ólögmætum aðgerðum gegn Íslandi sem íslensk stjórnvöld hljóti að mótmæla kröftuglega“.

Eins og komið hefur fram samþykktu ráðherrar sjávarútvegsmála innan Evrópusambandsins á fundi sínum í Brussel í dag nýjar reglur sem beitt verður til að refsa Íslendingum og Færeyingum fari þeir ekki að vilja ESB í makríldeilunni.

ESB-þingið samþykkti reglurnar fyrr í þessum mánuði en þær eiga sér langan aðdraganda.

„Eins og ég hef áður sagt þá eiga strandríkin sama rétt til veiða innan lögsögu sinnar og bera sömu ábyrgð sé veitt umfram ráðgjöf þannig að hætta stafi af. Evrópusambandið getur því ekki beitt aðgerðum gegn einu strandríki umfram önnur sem veiða makríl, á grundvelli þessarar samþykktar sinnar. Ástæðan er jafnræðisreglan sem sambandinu ber að virða. Enn og aftur er Evrópusambandið með hótanir til Íslands um leið og það tengir makríldeiluna og ESB-umsóknina stöðugt saman. Þetta snýst um hótanir en ekki málefnalega nálgun,“ segir Jón Bjarnason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert