Refsiaðgerðir náist ekki samkomulag í október

Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB.
Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fram kemur á fréttavefnum Agence Europe í dag að nokkur ríki Evrópusambandsins hafi farið fram á það á fundi ráðherraráðs sambandsins í gærmorgun að næðist ekki samkomulag í makríldeilunni á fundi strandríkja við Norðaustur-Atlantshaf sem fyrirhugaður er í London 22. október næstkomandi yrði framkvæmdastjórn þess að grípa til harðra aðgerða gegn Íslendingum og Færeyingum og þar með talið viðskiptaþvingana.

Í fréttinni segir að á meðal þeirra ríkja sem hafi sett fram þessa kröfu séu Bretland, Spánn, Írland, Frakkland, Portúgal og Belgía en ráðherraráð Evrópusambandsins samþykkti í gær reglugerð sem heimilar því að grípa til refsiaðgerða gegn ríkjum sem það telur stunda ósjálfbærar veiðar á fiskistofnum sem þau deila með sambandinu. Sérstaklega var tekið fram í yfirlýsingu ráðherraráðsins eftir samþykktina í gær að reglugerðinni mætti beita í makríldeilunni.

Haft er eftir Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, að sambandið muni standa vörð um bandalag sitt við Noreg í makríldeilunni gegn Íslandi og Færeyjum og ennfremur beita þeim refsiaðgerðum sem heimilaðar eru samkvæmt reglugerðinni þegar réttar aðstæður verða fyrir hendi. Reglugerðin væri öflugt vopn í deilunni. Samkvæmt upplýsingum mbl.is má gera ráð fyrir því að hægt verði að beita reglugerðinni eftir tvær vikur þegar hún hefur endanlega tekið gildi.

Damanaki sagði á heimasíðu sinni fyrr í þessum mánuði að samningamenn Evrópusambandsins myndu mæta á strandríkjafundinn í október með reglugerðina í farteskinu með það að markmiði að ná sanngjörnu og sjálfbæru samkomulagi um makrílveiðarnar í Norðaustur-Atlantshafi. „Það ætti að vera ljóst núna að okkur er full alvara og að við getum knúið slíkt fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert