Stærð makrílstofnsins verður að endurmeta

Friðrik Arngrímsson.
Friðrik Arngrímsson. mbl.is

 Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir viðbrögð Evrópusambandsins og einstakra þingmanna Evrópuþingsins í makríldeilu sambandsins og Noregs annars vegar og Íslendinga og Færeyinga hins vegar koma á óvart. Mikið ójafnvægi sé í viðbrögðunum og beinlínis farið fram með grófar rangfærslur segir Friðrik í viðtali við blaðið Sóknarfæri sem kom út í dag og dreift var með Morgunblaðinu.

„Málflutningurinn er hreint ekki yfirvegaður og einkennist af röngum staðhæfingum, eins og til dæmis því að veiðar okkar séu ólögmætar. Það eru þær auðvitað ekki, ekkert frekar en veiðar Evrópusambandsins sjálfs. Síðan hafa einstakir þingmenn á Evrópuþinginu gengið svo langt að gera tillögur um viðskiptabann með sjávarafurðir almennt,“ segir Friðrik.

Stærri stofn en talið hefur verið

Framkvæmdastjóri LÍU leggur þunga áherslu á vísindalegar rannsóknir á makrílstofninum, göngum hans, áhrifum hans á vistkerfið og sér í lagi stofnstærð. Þetta sé eitt brýnasta verkefni íslenskra vísindamanna um þessar mundir.

„Við vitum að í Skotlandi, á Írlandi og jafnvel í Noregi voru aflaupplýsingar gróflega falsaðar sem hefur skekkt mat vísindamanna á stofnstærð makrílsins. Ég er sannfærður um að makrílstofninn er umtalsvert stærri en talið hefur verið. Það leiðir beint af því að uppgefnar tölur um aflamagn, sem vísindamenn byggja á, sýndu aðeins hluta þess afla sem veiddur var. Þegar svo háttar til fæst of lágt stofnmat. Íslenskir vísindamenn þurfa að taka frumkvæðið í því að finna raunverulega stofnstærð makrílsins að teknu tilliti til þessa. Sameiginlegir rannsóknaleiðangrar Íslands, Færeyja og Noregs, þar sem stofninn er mældur með svokallaðri trollaðferð, eru einnig mikilvægir. Því miður hefur Evrópusambandið ekki viljað taka þátt í þeim.“

Höfum sterk rök með okkur

Friðrik segir veiðarnar hafa gengið vel í sumar, líkt og undanfarin ár. Makríllinn hafi verið kominn vestur fyrir landið mjög snemma í ár en hins vegar hafi mörg skip farið seinna til veiða en á síðasta ári. „Það skýrist af ástandi makrílsins en hann verður verðmeiri þegar líður á árið. Almennt var þetta góð vertíð og þrátt fy“ir að verð hafi verið lægra en í fyrra þá skilar makríllinn miklum verðmætum í þjóðarbúið," segir Friðrik og hvetur stjórnvöld til að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hafi verið af hálfu Íslendinga í þessu máli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert