Verðtollar á kjúklinga ólögmætir

Málið snerist um tolla sem lagðir voru á 691 kg …
Málið snerist um tolla sem lagðir voru á 691 kg af kjúklingabringum frá Danmörku. mbl.is/Brynjar Gauti

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt ríkið til að greiða fyrirtækinu Innnes ehf. 376 þúsund krónur vegna reglugerðar sem landbúnaðarráðuneytið setti um tollkvóta á innfluttu kjöti. Álagning tollsins var andstæð lögum að mati dómsins.

Innnes ehf. stundar m.a. innflutning á matvörum í atvinnuskyni. Í desember 2011 flutti fyrirtækið inn 691 kg af kjúklingabringum frá Danmörku. Sendingin var tollafgreidd og greiddi Innnes 149,44% toll samkvæmt úthlutuðum tollkvóta á grundvelli reglugerðar nr. 558/2011 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á nautgripa-, svína- og alifuglakjöti.

Nýr ráðherra breytti reglugerðinni

Jón Bjarnason fyrrverandi landbúnaðarráðherra setti þessa reglugerð eftir að hann varð ráðherra, en með henni var breytt þeirri aðferð sem hafði verið notast við þegar tollur var lagður á innflutta kjúklinga. Í stað þess að miða við svokallaðan magntoll var miðað við verðtoll.

Ef miðað hefði verið við magntoll hefði Innnes þurft að greiða 384.887 kr. í toll af kjúklingabringunum, en ekki 760.986 kr. eins og fyrirtækið varð að gera eftir að reglugerðinni hafði verið breytt.

Jafnframt tóku ráðuneytið ákvörðun árið 2009 um að úthluta engum „WTO-tollkvótum“ það ár. Ráðuneytið rökstuddi þessa ákvörðun með þeim hætti, að vegna stöðu gengis krónunnar og hækkunar á innflutningsverði landbúnaðarvara væru ekki forsendur til að úthluta sérstaklega WTO-tollkvótum.

Í dómnum eru gerðar margvíslegar athugasemdir við ákvörðun landbúnaðarráðherra. Bent er á að ekki megi breyta skattlagningu nema með lögum, og vísað er þar til fordæmis í dómum Hæstaréttar.

Í dómnum segir að tollalög verði ekki skilin á annan hátt en að ráðherra sé árlega skylt að leyfa innflutning á a.m.k. 59 tonnum á kjöti úr alifuglum.

Ríkið þarf því að endurgreiða Innnes 376.099 krónur með vöxtum vegna þess að það lagði á of háan toll. Jafnframt þarf ríkið að greiða Innnes 950.000 kr. í málskostnað.

Þess má geta að eftir að Steingrímur J. Sigfússon tók við landbúnaðarráðuneytinu af Jóni Bjarnasyni var reglugerðinni breytt og jafnframt auglýstir lágmarkstollar í samræmi við skuldbindingar Íslands í WTO-samningnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert