Ekki endilega lausn að lengja tímann

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði á ársfundi Vinnumálastofnunar að lenging á bótatímabili atvinnulausra væri ekki endilega lausn á vanda þeirra langtímaatvinnulausu. Betra væri að vinna með mál hvers og eins og reyna að gera fólk hæfara á vinnumarkaði.

Samkvæmt lögum getur fólk verið á atvinnuleysisbótum í þrjú ár, en eftir það dettur það út af bótum. Eftir hrun var ákveðið að lengja þetta tímabil tímabundið í fjögur ár. Lögin eiga að falla úr gildi um áramót, en Guðbjartur sagði að stjórnvöld væru að skoða vanda langtímaatvinnulausra í samráði við sveitarfélögin, Vinnumálastofnun og aðila vinnumarkaðarins.

Guðbjartur sagði ekkert á fundinum um hvað stjórnvöld ætluðu að gera, en sagði að tillögur um framhald málsins myndu liggja fyrir, eigi síðar en við aðra umræðu um fjárlagafrumvarpið.

Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í vikunni var nefnt að kostnaður sveitarfélaganna við að stytta bótatímabilið gæti orðið 4-5 milljarðar vegna þess að sveitarfélögin yrðu að auka greiðslur vegna fjárhagsaðstoðar til fólks sem ekki væri með vinnu og hefði engar tekjur. Guðbjartur sagði þessar tölur út í hött. Þessi kostnaður yrði mun minni.

Guðbjartur sagði að vandamál þessa hóps myndi hins vegar ekki gufa upp þó að fólk hyrfi út af bótum. Lausnin fælist í því að gera þennan hóp samkeppnishæfari á vinnumarkaði með menntun og starfsendurhæfingu. Vinnumálastofnun hefði lagt áherslu á að vinna að úrræðum fyrir fólk sem hefði verið án vinnu í langan tíma og það þyrfti að halda áfram á þeirri braut.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert