Störfum fjölgaði um 2.300 í fyrra

Atvinnuleysi var 7,4% á síðasta ári. Vinnumálastofnun spáir að það …
Atvinnuleysi var 7,4% á síðasta ári. Vinnumálastofnun spáir að það verði 5,7% í ár. mbl.is/Golli

Vinnumálastofnu telur að þegar tekið sé tillit til breytinga á vinnutíma hafi störfum hér á landi fjölgað um 2.300 á síðasta ári. Stofnunin segir að körlum hafi fækkað á vinnumarkaði, m.a. vegna þess að þeir hafi leitað að vinnu erlendis.

Bæði Vinnumálastofnun og Hagstofan mæla atvinnuleysi og fjölda starfa hér á landi. Niðurstöður stofnananna eru ekki samhljóða, enda beita þær ekki sömu aðferð við mælinguna.

Niðurstaða Hagstofunnar er að litlar breytingar hafi orðið á vinnumarkaði milli áranna 2010 og 2011. Atvinnuþátttaka hafi minnkað aðeins eða úr 81,1% í 80,4%. Fjöldi á vinnumarkaði á árinu 2011 var 180 þúsund manns eða um 1.000 færri en árið áður og fjöldi starfandi var nákvæmlega sá sami eða 167.300 Mismunurinn felst í fækkun atvinnulausra um 1.000 manns eða úr 13.700 í 12.700.

Á ársskýrslu Vinnumálastofnunar er kafað dýpra í tölur Hagstofunnar og niðurstaðan er að talsverðar breytingar hafi orðið á einu ári. Körlum á vinnumarkaði hafi fækkað heldur meira en konum, „einkum vegna brottflutnings karla frá landinu, bæði útlenskra karla en einnig íslenskra karla sem fundið hafa vinnu erlendis til lengri eða skemmri tíma.“

Hlutastörfum fækkar og vinnutími lengist

Þá virðast karlar hafa farið af vinnumarkaði og í skóla í meira mæli en konur, enda minnkar atvinnuþátttaka karla meira en kvenna milli ára. Á hinn bóginn fjölgar þeim sem voru starfandi í fullu starfi aftur á árinu 2011 eftir fækkun 2010, bæði körlum og konum, en starfandi í hlutastarfi fækkaði að sama skapi. Vikulegur vinnutími lengdist líka lítið eitt, eða um hálfa klukkustund milli áranna 2010 og 2011.

„Að teknu tillit til breytinga á vinnutíma reiknast fjölgun starfa - þegar miðað er við 40 stunda vinnuviku - sem svarar til um 2.300 manns milli áranna 2010 og 2011,“ segir í ársskýrslunni.

Í skýrslunni kemur einnig fram að talsverð tilfærsla átti sér stað milli atvinnugreina á árinu. Störfum í opinberri þjónustu fækkaði um 6%, en að sama skapi fjölgaði í verslun og þjónustustarfsemi tengdri ferðaþjónustu og flutningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert