Gagnrýndi skólakerfið harkalega

Nokkrir skjólstæðingar Vinnumálastofnunar.
Nokkrir skjólstæðingar Vinnumálastofnunar. mbl.is/Ómar

„Það má segja að kerfið bíti í skottið á sjálfum sér. Það detta margir út úr skóla og þetta er fólkið sem fyrst missir atvinnuna þegar hallar undir fæti á vinnumarkaði,“ sagði Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, en hann gagnrýndi harðlega íslenskt skólakerfi á ársfundi Vinnumálastofnunar.

Hjálmar sagði skólakerfið á Íslandi lúta enn skipulagi iðnbyltingarinnar og upplýsingabyltingin hefði haft tiltölulega lítil áhrif á skipulag þess. Nemendur ættu að mæta í tíma þegar bjallan hringdi og þeir væru að læra meira og minna það sama. Lítið væri tekið tillit til þarfa atvinnulífsins, enda tengsl milli skóla og atvinnulífsins lítil.

„Annar þáttur í háu brottfalli framhaldsskólanema er sú einfalda staðreynd að okkur hefur tekist á alveg ótrúlega fínan hátt að halda atvinnulífinu utan við skólakerfið. Segja má að skólar annars vegar og atvinnulífið hins vegar hafi gert þegjandi samkomulag um að halda hvoru öðru aðskildu frá hinu,“ sagði Hjálmar.

Hjálmar sagði að skólakerfinu mistækist að vekja áhuga stórs hluta nemenda á námi. Þetta fólk hyrfi frá námi og sækti út á vinnumarkaðinn. Meðan nóg vinna væri í boði væri þetta allt í lagi, en þegar herti að væri þetta fólk fyrst til að missa vinnuna og ætti erfitt með að fá aðra vinnu. Skólakerfið hefði brugðist þessu fólki og það yrði síðan skjólstæðingar Vinnumálastofnunar.

„Sá gamli góði Latínugráni ríður enn húsum í íslensku skólakerfi. Hver er Latínugráni? Hann varð til um leið og Háskóli Íslands var stofnaður. Hann var stofnaður um læknisfærði, náttúrufræði, lögfræði og þjóðleg íslensk fræði. Þetta er áherslan í íslensku skólakerfi frá leikskóla og upp úr. En það á ekki við alla að verða læknar, lögfræðingar lögfræðingar eða prestar. Það gæti verið að atvinnulífið höfðaði til þeirra, en skólakerfið ekki.“

Verða skjólstæðingar Vinnumálastofnunar

Hjálmar sagði að á hverju ári kæmu um fjögur þúsund nemendur út úr grunnskólanum. „Í hópi þessa 4.000 krakka eru örugglega einhverjir sem vildu verða löggur, slökkviliðsmenn, sjúkraflutningamenn, fangaverðir, flugmenn eða flugfreyjur eða eitthvað slíkt. Eru þessar námsbrautir til inn í framhaldsskólanum? Svarið er; þær finnast ekki þar. Þær eru í lokuðu kerfi sem aðeins fáeinir útvaldir hafa aðgang að. Fólk finnur ekki þessa námsbraut sem gæti örvað það til náms og haft gaman af því að vera í skóla. Þess vegna dettur þetta fólk út úr skóla og verður skjólstæðingar Vinnumálastofnunar.“

Keilir er meðal þeirra skóla sem hafa tekið þátt í verkefninu Nám er vinnandi vegur“, sem tæplega 1000 atvinnuleitendur tóku þátt í á síðasta ári. Keilir tók við 50 nemendum og sagði Hjálmar að þeir hefðu allir lokið námi nema einn sem fékk vinnu. Hann sagði að þetta hefðu verið krefjandi hópur, en hann hefði staðið sig vel. „Þegar fólk var farið að rífa kjaft vissum við að við vorum á réttri leið,“ sagði Hjálmar.

Opnaði dyr og skapaði tækifæri

Erna Sif Ómarsdóttir er ein þeirra sem stundaði nám í Keili. Hún lauk ekki stúdentsprófi og hefur verið atvinnulaus um nokkurt skeið. „Þetta verkefni opnaði dyrnar fyrir mig og skapað fullt af möguleikum og tækifærum.“

Erna hefur lokið við háskólabrúna og stundar núna nám í flugumferðarstjórn. Hún sagði að það hefði alla tíð verið draumur sinn að verða flugumferðarstjóri og nú væri sú draumur að rætast.

Hjálmar Árnason
Hjálmar Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert