Vilja skoða upptöku Kanadadollars

Fram kemur í stjórnmálaályktun málefnaþings Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) sem fram fór um helgina að nær öll verk núverandi ríkisstjórnar hefðu stuðlað að verri lífskjörum fyrir íslensku þjóðina og að tækifæri sem verið hefðu til staðar eftir bankahrunið til þess að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja, styðja einstaklingsframtakið og efla verðmætasköpun, hefðu ekki verið nýtt.

„Þvert á móti hefur ríkisstjórnin sannað sig sem sú versta í sögunni enda hafa kjör allra þjóðfélagshópa versnað á undanförnum árum. Ástandið hefur gert það að verkum að stór hópur vel menntaðra og vinnufúsra einstaklinga hefur flúið land og hafið störf utan landsteinanna. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur þannig gert lífskjör á Íslandi verri og er landið nú svo óálitlegur kostur til að lifa á að fólk flýr sitt eigið heimaland,“ segir í ályktuninni.

Þá er í ályktuninni meðal annars kallað eftir einfaldara skattkerfi og lægri sköttum bæði á einstaklinga og fyrirtæki, skuldasöfnun hins opinbera gagnrýnd og kallað eftir niðurskurði þess hluta ríkisins sem ekki telst til nauðsynjaþátta. Kallað er eftir brýnum aðgerðum í efnahagsmálum og að stjórnvöld kanni möguleikann á að taka upp Kanadadollar hér á landi. Afnema verði gjaldeyrishöftin sem fyrst.

„Ísland er ríkt af náttúruauðlindum og staðsetning þess milli Ameríku og Evrópu er einstök. Hér eru til staðar öll þau skilyrði sem þarf til að skapa grundvöll fyrir öflugt atvinnulíf en til þess þurfa umsvif og afskipti stjórnmálamanna að minnka. Þannig myndu lífskjör allra þjóðfélagshópa batna – bæði tekjulágra og tekjuhárra,“ segir ennfremur í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert