Gáfu blóð í nafni homma

Hópurinn sem fór í Blóðbankanna í gær heilsaði upp á …
Hópurinn sem fór í Blóðbankanna í gær heilsaði upp á Blóðdropann í leiðinni. Ljósmynd/Birna Hrönn

„Við erum að reyna að vekja athygli á þessum málstað á fallegan og friðsaman hátt, þar sem samkynhneigðum karlmönnum er gert kleift að gefa blóð í gegnum okkur sem getum það, megum og þorum,“ segir Birna Hrönn Björnsdóttir hjúkrunarfræðingur sem gaf blóð ásamt hópi lesbía í gær, í nafni karla sem mega það ekki vegna kynhneigðar sinnar. 

Samkvæmt reglum Blóðbankans er karlmönnum ekki heimilt að gefa blóð ef þeir hafa haft samfarir við sama kyn, en það er arfleifð reglna sem settar voru árið 1981, sama ár og alnæmi var í fyrsta skipti greint í Bandaríkjunum. Síðan þá hefur margt breyst og fleiri nýsmit HIV veirunnar greinast nú meðal gagnkynhneigðra en samkynhneigðra.

Munar um hvern virkan blóðgjafa

Birna Hrönn hefur um fjögurra ára skeið staðið fyrir blóðgjöfum í nafni homma. Þetta er táknrænn gjörningur þar sem blóðgjafinn fær eftir gjöfina afhent viðurkenningarskjal með nafni þess homma sem blóðgjöfin er tileinkuð. Birna Hrönn segir að lítill hópur hafi byrjað á þessu en sífellt fleiri taki þátt, flest fólk á þrítugsaldri sem jafnvel er að gefa blóð í fyrsta skipti vegna þess. Hún segir þetta hafa opnað augu margra.

„Við lítum svo á að margt smátt geri eitt stórt og það að þessi litli hópur fari í Blóðbankann hefur vakið athygli margra á þessari löggjöf. Mörgum verður mjög brugðið því þeir vissu ekki að þetta væri svona.“ Birna Hrönn er sjálf hjúkrunarfræðingur og þekkir því af eigin raun að það munar um hvern blóðdropa og hvern virkan blóðgjafa. „Þetta stendur mér mjög nærri því ég gef oft blóð í minni vinnu þannig að ég veit hvað þetta er mikilvægt.“

Ísland getur sett fordæmi

Blóðbankinn hefur borið því við að reglunum sé ekki hægt að breyta þar sem bankinn vinni samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Blóðgjöf hommar er víðast hvar bönnuð en þó hafa lönd eins og Belgía og Spánn tekið af skarið og breytt reglunum.

Birna Hrönn bendir auk þess á að Ísland gæti verið fyrirmynd á þessu sviði. Hún rekur ásamt kærustu sinni ferðaþjónustuna Pink Iceland, sem sérhæfir sig í ferðum fyrir hinsegin fólk og taka þær því á móti fjölda samkynhneigðra útlendinga á ári hverju.

„Við finnum það að fólk horfir til Íslands nánast sem draumalands, vegna hjónabandslöggjafarinnar, mannréttinda samkynhneigðra og af því að við erum með opinberlega samkynhneigðan forsætisráðherra. Ísland hefur nú þegar sett stórt fordæmi fyrir mannréttindabaráttu hinsegin fólks í öllum heiminum. Af hverju ekki þetta líka?“

Viðurkenningarskjöl eru veitt fyrir blóðgjöf í nafni homma.
Viðurkenningarskjöl eru veitt fyrir blóðgjöf í nafni homma. Ljósmynd/Birna Hrönn
Samkvæmt reglum Blóðbankans má karlmaður ekki gefa blóð ef hann …
Samkvæmt reglum Blóðbankans má karlmaður ekki gefa blóð ef hann hefur haft samfarir við annan karlmann. Ljósmynd/Birna Hrönn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert