Forsetinn hvetur til tónmenntar

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. Eggert Jóhannesson

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, áréttaði mikilvægi þess að gefa skólabörnum kost á að komast í tæri við tónlistargyðjuna í tækifærisræðu í móttöku með sveit evrópskra tónskálda í dag.

Forsetinn tók á móti sveit evrópskra tónskálda sem sækja fund tónskáldasamtakanna ECSA á Íslandi.

Á forsetavefnum, forseti.is, segir svo frá ræðu forseta.

„Í ávarpi áréttaði forseti mikilvægi tónmenntunar strax á fyrstu skólaárum nýrra kynslóða. Sú ákvörðun fyrir nokkrum áratugum að gera tónlistarkennslu að skyldunámsgrein í grunnskólum hefði á okkar tíð skilað fjölþættu og skapandi tónlistarlífi.

Slíkt væri vitnisburður um að í sérhverju samfélagi byggju hæfileikar til nýsköpunar og menningar. Með samstöðu og markvissri menntastefnu myndu slíkir hæfileikar nýtast til aukinnar fjölbreytni,“ sagði forsetinn.

Ólafur Ragnar er mikill áhugamaður um tónlist og lét sig ekki vanta við opnun Hörpunnar 4. maí í fyrra en hann sótti þá tónleika Vladimírs Ashkenazy og Víkings Heiðars Ólafssonar.

Fram kom í Morgunblaðinu í síðustu viku að margir efnalitlir foreldrar ættu erfitt með að kosta tónmenntir og aðrar tómstundir fyrir börn sín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert