ESB ekki fyrirstaða frekara samstarfs

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG.
Björn Valur Gíslason, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ef sá samningur sem lagður verður fram á endanum verður góður að mínu mati, þá mun ég segja já. Ef ekki, þá nei. Ég verð á endanum að eiga það við sjálfan mig eins og við öll. Aðalatriðið [er] að við fáum eitthvað í hendurnar til að gera upp hug okkar, þ.e. klára málið til enda.“

Þetta sagði Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í netspjalli við lesendur Dv.is í dag spurður hvernig hann myndi greiða atkvæði um aðildarsamning að Evrópusambandinu.

Síðar í umræðunni var Björn síðan spurður að því hver samningsmarkmið Íslands ættu að vera í sjávarútvegsmálum í aðildarviðræðunum við ESB að mati Björns og svaraði hann því til að halda yrði óskertum yfirráðum yfir auðlindum sjávar við Ísland.

„Ótakmörkuð yfirráð yfir fiskistofnunum og auðlindum sjávar sem lúta okkar stjórn varðandi nýtingu og ráðstöfun en ekki annarra. Engin þjóð með svo mikilvæga auðlind myndi gefa hana frá sér,“ sagði hann.

Björn var einnig spurður að því hvort hann teldi VG geta starfað áfram með Samfylkingunni eftir næstu þingkosningar ef Samfylkingin legði áfram áherslu á umsóknina um aðild að ESB. Hann sagðist ekki sjá hvað ætti að koma í veg fyrir það.

„VG og kratar eiga samleið í flestum málum. ESB-málin skilja þessa flokka að en ég sé ekki að það þurfi að leiða til þess að við getum ekki starfað saman enda reynslan góð síðustu árin,“ svaraði Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert