Tekið tillit til væntinga og þarfa Íslands

Við innganginn að höfuðstöðvum framkvæmdastjórnar ESB í Brussel.
Við innganginn að höfuðstöðvum framkvæmdastjórnar ESB í Brussel. Mynd/JPlogan

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir í nýrri skýrslu um stöðu aðildarviðræðnanna, að tekið verði tillit til væntinga og sérstakra þarfa Íslendinga. Skýrslan er kynnt formlega í dag.

Í skýrslunni segist framkvæmdastjórnin telja víst, að Evrópusambandinu takist að leggja fram pakkalausn í viðræðunum við Ísland þar sem tillit verði tekið til sérstöðu og væntinga Íslendinga. Sú lausn verði þó innan þeirra marka, sem viðræðurnar og reglur Evrópusambandsins leyfa. Þar verði einnig gert ráð fyrir því, að íslenska þjóðin muni á endanum taka upplýsta ákvörðun um málið, að því að kemur fram í frétt Bloomberg-fréttastofunnar. 

Búið er að ljúka viðræðum um 10 af 35 köflum í samningaviðræðunum og búið er að opna 8 kafla til viðbótar. Í stöðuskýrslunni segir framkvæmdastjórnin, að ýmis ljón séu enn í veginum, einkum þó á sviðum fjármálaþjónustu, landbúnaðar og sjávarútvegs. 

Í skýrslunni er einnig fjallað um stöðu aðildarviðræðna Evrópusambandsins við önnur umsóknarríki. Króatía fær formlega aðild að sambandinu í júlí á næsta ári og Albanía, Makedónía og Svartfjallaland fá öll góðar umsagnir. Serbía og Kósóvo þurfa að draga úr spennu sín á milli áður en þau geta fengið aðild og enn skortir talsvert á að Bosnía-Hersegóvína sé trúverðugt umsóknarríki, að mati framkvæmdastjórnarinnar.  Þá er lítið sagt að frétta af aðildarviðræðunum við Tyrkland.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert