Óbærileg bið í kynferðisbrotamálum

Meðferð kynferðisbrotamála getur tekið mjög langan tíma.
Meðferð kynferðisbrotamála getur tekið mjög langan tíma. mbl.is/Kristinn

Allt að 2 ár geta liðið frá því nauðgun er kærð til lögreglu og þar til ákvörðun er tekin um ákæru. Þessi langi biðtími getur verið óbærilegur bæði fyrir þolandann og hinn ásakaða. Kynferðisbrotadeild lögreglunnar er undirmönnuð og þarf oft að fresta rannsókn kynferðisbrota vegna annarra mála. Þetta var meðal þess sem fram kom á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í morgun um meðferð kynferðisbrotamála.

Fæstir taka það skref að kæra

Á fundinn voru boðaðir fulltrúar frá neyðarmóttöku nauðgana, Stígamótum og samtökunum Drekaslóð. Tilefni fundarins var fjölmiðlaumfjöllun um að einungis 3% kynferðisbrotamála sem tilkynnt væru til lögreglu leiddu til sakfellingar. Mikill vilji kom fram hjá þingmönnum nefndarinnar til að gera úrbætur til að greiða fyrir meðferð kynferðisbrotamála og var m.a. rætt hvort tilefni og tækifæri væri til að koma á fót embætti sérstaks saksóknara í kynferðisbrotamálum. 

Í máli Eyrúnar Jónsdóttur, verkefnastjóra á neyðarmóttöku Landspítala fyrir þolendur kynferðisofbeldis, kom fram að þangað leituðu að meðaltali um 120 manns á ári, frá 12 ára aldri og upp úr. Yngsti þolandinn sem þangað hefur komið var 10 ára, en sá elsti 78 ára. Flestir koma mjög fljótt eftir að brotið er á þeim, 70% innan tveggja sólarhringa. Það getur skipt miklu máli varðandi söfnun sönnunargagna, en aðeins tæpur helmingur þessa fólks ákveður þó að kæra brotið til lögreglu. Eyrún segir að starfsfólk byrji strax frá fyrstu stundu að búa þolendur undir að málið muni taka langa tíma og kunni að enda með niðurfellingu.

Rannsókn sett á ís vegna anna

„Lögreglan sinnir gríðarlega erfiðum málum og þegar ofbeldisbrot eða morð koma upp eru kynferðisbrot lögð til hliðar vegna þess að mannaflinn er ekki nægur til að sinna þeim,“ sagði Eyrún. Brotaþolar líði fyrir það ef önnur mál komi upp samtímis eða ef veikindi eru hjá lögreglu. Yfir sumartímann, þegar fáliðað sé, falli rannsókn mála oft niður um tíma. Þegar rannsókn lýkur og mál er sent til saksóknara tekur við önnur eins bið að sögn Eyrúnar.

Í heild geti liðið allt að tvö ár áður en ákvörðun er tekin um hvort ákæra verði gefin út eða ekki. Á þessum tíma sé afskaplega litlar upplýsingar hægt að fá um framvindu mála og biðin reynist öllum hlutaðeigandi erfið. Eyrún sagði að væri vilji til að breyta þessu yrði að veita meiri fjármuni til bæði saksóknara og kynferðisbrotadeildar lögreglu. „Þetta fólk er að drukkna.“

Málum fjölgar en dómar standa í stað

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, benti sömuleiðis á að á áratug hefði skráðum nauðgunum í kerfinu fjölgað gífurlega, eða um helming á milli tímabilanna 1997-2001 og 2001 til 2006. Guðrún benti á að mest væri um nauðganir í löndum þar sem jafnrétti væri  mest, þar sem konur sætti sig ekki við ofbeldið og kæri líka erfiðu málin. En þrátt fyrir þessa fjölgun nauðgana í kerfinu standa dómarnir í stað að sögn Guðrúnar. 

Á Stígamótum koma fram um 250 kynferðisbrotamál á ári hverju. Guðrún segir að þetta séu yfirleitt ekki sömu mál og þeirra sem leiti strax á neyðarmóttöku nauðgana. „Á Stígamót kemur fólkið sem treystir sér ekki á neyðarmóttöku. Fólk sem kemur bara til að leita sér hjálpar, en ekki til að leita réttar síns.“ Á móti þessum 250 málum sem þar koma upp er fjöldi dóma sem fellur í kynferðisbrotum árlega teljandi á fingrum. 

„Ég veit að það eru engar patentlausnir í þessu. Þetta er og verður alltaf óþolandi erfiður málaflokkur vegna þess að þessi brot eiga sér stað bak við luktar til þar sem er orð gegn orði þannig að hversu vel sem við vinnum þá munum við aldrei ná að leysa öll þessi mál,“ sagði Guðrún.

Embætti sérstaks saksóknara í kynferðisbrotum

Mikið rými er hins vegar til umbóta ef marka má Guðrúnu. „Ef við erum sammála um að kynferðisbrotadeild lögreglunnar hafi verið augljóst framfaraskref, höldum þá áfram.“ Guðrún bendir á að sjálfsagt hafi þótt að skipa sérstakan saksóknara í efnahagsbrotamálum með sérhæfðu starfsfólki. Nú sé staðan sú að um helmingur mála sem komi á borð ríkissaksóknara sé kynferðisbrotamál, álagið sé mikið á starfsfólk og biðin löng. Eðlilegt sé því að skoða hvort ekki sé rétt að skipta embættinu upp sagði Guðrún og benti á að bæði á Spáni og Írlandi hefði verið stofnaður sérstakur saksóknari um kynferðisbrot. Spurð um lengd dóma yfir kynferðisafbrotamönnum sagði Guðrún það vissulega jákvætt að verið væri að nýta refsirammann betur. „En ég trúi ekki á refsingar. Aðalatriðið er ekki að dómar eigi að vera langir. Meginvandinn er sá að dómar falla ekki.“

Áfram verður fjallað um meðferð kynferðisbrotamála á næsta fundi allsherjar- og menntamálanefndar og verða þá boðaðir gestir úr röðum lögreglu og dómskerfisins.

Skúli Helgason varaformaður allsherjarnefndar boðaði til fundarins.
Skúli Helgason varaformaður allsherjarnefndar boðaði til fundarins.
Guðrún Jónsdóttir.
Guðrún Jónsdóttir. mbl.is/SteinarH
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert