Vill stofna sveitarfélagið Heiðmörk

Ólafur Þór Gunnarsson
Ólafur Þór Gunnarsson mbl.is

Ólafur Þór Gunnarsson bæjarfulltrúi VG í Kópavogi lagði á fundi bæjarráðs í morgun fram tillögu um sameiningu Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Álftaness. Slíkt sveitarfélag gæti fengið nafnið Heiðmörk.

Tillagan gerir ráð fyrir að stofnuð verði viðræðunefnd allra sveitarfélaganna og skili greinargerð í mars 2013. Hugmyndin gengur m.a. út á að styrkja sveitarstjórnarstigið og skapa mótvægi við Reykjavík á höfuðborgarsvæðinu. Ólafur segir að þeirri hugmynd hafi verið varpað fram að slíkt sveitarfélag gæti heitið Heiðmörk. Tillagan var samþykkt með þremur atkvæðum gegn einu en einn sat hjá.

„Undanfarin misseri hefur verið mikið rætt um sameiningu sveitarfélaga.  Á höfuðborgarsvæðinu ættu að vera ágætar aðstæður til að fækka sveitarfélögum og auka þannig hagkvæmni í rekstri þeirra.  Reykjavík er þegar mjög stór á íslenskan mælikvarða.  Sameining frá Kópavogi og suðurúr (jafnvel með einhverjum breytingum á sveitarfélagamörkum) gæti skapað mótvægi við borgina, m.a. innan sambands íslenskra sveitarfélaga og innan þeirra byggðarsamlaga sem þegar eru til staðar á höfuðborgarsvæðinu. Með tíð og tíma mætti svo sjá fyrir sér að sveitarfélög á svæðinu væru tvö (norðan og sunnan Fossvogs). Sveitarfélagið sunnan Fossvogs yrði með um 70 þúsund íbúa. Vel mætti hugsa sér að slíkt sveitarfélag héti Heiðmörk, eða öðru nafni sem gæti verið sameinandi fyrir svæðið,“ segir í greinargerð með tillögunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert