Lifrarpylsan var eitruð

AFP

Greining á lifrarpylsubitum sem dreift var í reiðhöll Gusts í Kópavogi fyrir sýningu Hundaræktunarfélagsins Rex í síðasta mánuði, leiddi í ljós að í þeim var músa- eða rottueitur. Þetta segir Ásgeir Guðmundsson, formaður Rex.

„Lögreglan hafði samband við mig í dag, eftir að hafa fengið niðurstöður úr greiningu í Háskóla Íslands. Flest bendir til þess að þetta sé annaðhvort músa- eða rottueitur. Okkur er verulega brugðið. Þetta er glórulaus verknaður og það skilur enginn maður þetta. Að það sé hægt að gera svona lagað,“ segir Ásgeir.

Það var bara einn tilgangur

„Ég veit ekki í hversu miklu magni eitrið var, en ef þetta var rottueitur eins og ýmislegt bendir til, þá hefðu  hundarnir drepist fljótlega. Það er ljóst að það var bara einn tilgangur; að drepa hundana.“

Ásgeir segir að sér sé ekki kunnugt um að nokkur hundur hafi étið lifrarpylsuna, en pylsubitunum hafði verið dreift við inngang reiðhallarinnar. „Sem betur fer sáum við þetta um leið og við komum inn í húsið og tókum þá ákvörðun um að hleypa engum þar inn fyrr en við værum komin með álit dýralæknis.“

Að sögn Ásgeirs verður ákveðið eftir helgi með framhald rannsóknar málsins. „Við getum í sjálfu sér lítið gert. Málið er í höndum lögreglu og við setjum traust okkar á hana.“

Frétt mbl.is: Frestað út af lifrarpylsu

Frá hundasýningu.
Frá hundasýningu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert