4.228 búnir að kjósa um tillögur stjórnlagaráðs

Á fimmta þúsund manns höfðu á tíunda tímanum í kvöld kosið í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd. Það er nokkru meira en á sama tíma fyrir stjórnlagaþingskosningarnar 2010.

Samkvæmt upplýsingum frá kjörstjóra í Laugardalshöll, þar sem kjósa má utan kjörfundar, höfðu 4.228 kosið um tillögurnar um kl. 21.15 í kvöld. Í Reykjavík höfðu 2.754 kosið og þar af höfðu 524 kosið í dag.

Til samanburðar höfðu 1.776 kosið á sama tíma fyrir stjórnlagaþingskosningar árið 2010. 5.142 höfðu kosið á sama degi fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave-samninginn árið 2011.

Vel yfir sjö þúsund manns höfðu kosið á sama degi fyrir forsetakosningarnar í sumar. 

Heildarfjöldi aðsendra atkvæða var 289 og þar af 184 í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert