Feðrum í fæðingarorlofi fækkað mikið

Feðrum sem taka fæðingarorlof hefur fækkað undanfarin ár.
Feðrum sem taka fæðingarorlof hefur fækkað undanfarin ár. mbl.is/Sverrir

Feðrum, sem fengu greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, fækkaði um 5,3% milli áranna 2009 og 2010. Milli áranna 2010 og 2011 fækkaði feðrum sem fengu greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði um 10,2%. Þetta kemur fram í svari velferðarráðherra við fyrirspurn þingmanns Samfylkingarinnar.

Meðal annars laut fyrirspurnin að þróun í þátttöku feðra í fæðingarorlofi frá og með árinu 2007. Í svari Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra, segir að tölulegar upplýsingar frá Fæðingarorlofssjóði sýni að feður hafi almennt nýtt réttindi sín til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði frá gildistöku laganna árið 2001. „Árið 2003 öðluðust feður sambærilegan rétt og mæður til fæðingarorlofs þegar gildandi lög um fæðingar- og foreldraorlof komu að fullu til framkvæmda. Frá árinu 2004 til ársins 2009 fjölgaði feðrum sem fengu greiðslur í fæðingarorlofi ár frá ári, en þó einungis um 0,4% milli áranna 2008 og 2009.“

Þegar litið er til meðalfjölda fæðingarorlofsdaga feðra má sjá að þeim fækkaði úr 102 dögum árið 2008 niður í 99 daga árið 2009. Lækkunin hélt áfram árið 2010 en þá var meðalfjöldi daga, sem feður fengu greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði, 90 dagar og lækkaði í 82 daga árið 2011.

Áhrif af breytingum í samfélaginu

Ráðherra segir ljóst að ýmsir þættir kunni að hafa haft áhrif á þá fækkun sem hefur orðið á töku fæðingarorlofs hjá feðrum síðustu fjögur árin. „Ætla má að hinar miklu breytingar sem hafa orðið í íslensku samfélagi frá haustmánuðum árið 2008, ekki síst á innlendum vinnumarkaði, hafi haft áhrif á fæðingarorlofstöku feðra. Má í því sambandi nefna lækkun kaupmáttar, óöryggi á vinnumarkaði og auknar skuldir heimilanna.“

Ráðherra telur því mikilvægt að skoða nánar hvort fjárhæð tekna foreldra hafi áhrif á fæðingarorlofstöku þeirra þar sem ljóst sé að lækkun á hámarksfjárhæð á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði hefur eingöngu áhrif á tekjuhærri hópa.

Til þess að bregðast við fækkuninni segir ráðherra að brýnt sé að færa greiðslur í fæðingarorlofi nær sínu fyrra horfi þannig að sem flestir foreldrar fái 80% af meðalheildarlaunum á tilteknu viðmiðunartímabili. „Þannig þarf að ráðast í endurreisn fæðingarorlofskerfisins sem fyrst þar sem hlutfall heildarlauna verður fært úr 75% í 80% af meðalheildartekjum umfram 200.000 kr. sem og að hækka hámarksgreiðslur þannig að meiri hluti foreldra, sem eru þátttakendur á vinnumarkaði, fái tekjur sínar sannanlega bættar.“

Þá boðar ráðherra að lagðar verði fram tillögur á yfirstandandi þingi um endurreisn fæðingarorlofsins, meðal annars með hækkun á hlutfalli viðmiðunartekna sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði miðast við og hámarksgreiðslna. Jafnframt verði lagðar til breytingar á lengingu orlofsins í tólf mánuði þar sem gert verður ráð fyrir að lengingin taki gildi í áföngum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert