„Tilraun til sögusköpunar“

Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson, gengur úr dómsal að lokinni fyrirtöku.
Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson, gengur úr dómsal að lokinni fyrirtöku. Ernir Eyjólfsson

Snorri Páll Jónsson, einn níumenninganna sem sýknaðir voru af árás á Alþingi, segir það ekki rétt að ætlunin hafi verið að yfirtaka Alþingi eins og Geir Jón Þórisson fv. yfirlögregluþjónn hélt fram á fundi í Valhöll í dag.

„Mér finnst nú rétt að benda á það að í sýknudómi yfir okkur kemur fram að ekkert benti til þess að við ætluðum að yfirtaka þingið. Eini tilgangur okkar var að komast á þingpalla til þess að viðra skoðanir okkar á ástandinu í þjóðfélaginu á þessum tíma,“ segir Snorri Páll Jónsson, einn níumenninganna sem ruddust inn í Alþingishúsið 8. desember 2008.

Geir Jón Þórisson fv. yfirlögregluþjónn sagði á fundi í Valhöll í dag að „árásin“ á þingið hafi verið einn alvarlegasti atburður mótmælanna. Telur hann að markmið níumenninganna hafi verið að yfirtaka þingið.

„Þetta dómsmál snerist aldrei um neitt annað en að við ætluðum að fara á þingpalla. Svo segir í sjálfri ákærunni frá saksóknara. Að halda einhverju öðru fram er alrangt,“ segir Snorri.

„Fyrir mér er þetta tilraun til sögusköpunar sem ekki er rétt,“ segir Snorri.

Sjá einnig: Hefðu yfirtekið þingið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert