Lærði að hætta að skammast sín

Emilía María Maidland
Emilía María Maidland mbl.is/Styrmir Kári

„Það er fullt af krökkum þarna úti sem upplifa mjög slæma hluti en fá enga hjálp og vilja ekki segja frá því, af því þau vilja ekki vera dæmd fyrir það.“ Þetta segir 14 ára dóttir alkóhólista. Algengt er að börn alkóhólista finnist þau standa ein og feli vandamál foreldra sinna fyrir umheiminum.

Tekin af heimilinu 11 ára

Emilía María Maidland er 14 ára gömul og býr hjá eldri bróður sínum eftir að barnaverndaryfirvöld gripu inn í vegna heimilisaðstæðna sem lituðust af áfengissýki föður hennar. Emilía María sagði frá reynslu sinni á morgunverðarfundi forvarnar- og fræðsluhópsins Náum áttum, um óbeina áfengisneyslu. Hún segist vilja berjast fyrir því að börnum alkóhólista sé hjálpað meira. Sjálf hefði hún viljað að yfirvöld gripu mun fyrr inn í.

„Það er mjög erfitt að upplifa [alkóhólisma] og hefur mikil áhrif á börnin sem lifa við þetta. Ég bjó hjá foreldrum mínum í 11 ár en svo kom að því að þau gátu ekki haft mig lengur af því þau stóðu sig ekki nógu vel, þannig að ég flutti að heiman. En þegar átti að hjálpa fjölskyldunni var foreldrum mínum hjálpað, en ég fékk mjög litla hjálp. Ég hefði getað komið sterkari út úr þessu en fékk ekki strax þá hjálp sem ég þurfti.“ 

Þurfa að fá að leika sér eins og börn

Emilía fékk á endanum meðferð bæði sálfræðinga og geðlækna. Hún segir það vissulega hafa hjálpað og verið ágætt fyrsta skref, en það sem á endanum skipti hvað mestu fyrir börn sé að fá að vera þau sjálf og leika sér eins og börn með öðrum sem upplifað hafa það sama. Hún tekur nú þátt í nýju námskeiði fyrir unglinga hjá Hlutverkasetri, en námskeiðið er þróað af foreldrum sem sjálfir voru á sínum tíma í erfiðum aðstæðum sem börn.

„Það hjálpar mjög mikið að hitta aðra krakka sem hafa upplifað það sama. Því maður vill ekki vera einn í þessu, “segir Emilía. „Sálfræðingar hafa kannski ekki upplifað þetta sjálfir, heldur lesið um það í bókum, en maður vill hitta einhvern sem þekkir það sama og þess vegna fannst mér hjálpa mér mjög að fá að fara bara á leikjanámskeið. Fá að leika mér með öðrum krökkum sem áttu erfitt og vildu fá að leika sér en treysta sér ekki til að eignast vini og fá ekki tækifæri til að leika sér með foreldrum sínum því þeir voru ekki að standa sig.“

Börn hugsa meira um foreldrana en sig sjálf

Emilía segist vilja sjá að fleiri slík úrræði séu í boði fyrir börn við erfiðar heimilisaðstæður. Oft séu þau hins vegar mjög dýr sem þýði að einmitt þau börn sem þyrftu mest á þeim að halda komist ekki. „Krakkar [sem búa við alkóhólisma] pæla miklu meira í foreldrum sínum, og hvernig þeim líður, en pæla ekki í því hvernig þeim líður sjálfum. Þau þurfa að fá að leika sér bara og vera krakkar án þess að hafa áhyggjur.“

Að umgangast önnur börn alkóhólista hjálpaði Emilíu líka að sigrast á eigin fordómum og skömminni. „Ég skammaðist mín mjög mikið á tímabili fyrir foreldra mína. Ég vildi ekki fá þau með mér í skólann eða að þau fylgdu mér neitt, af því að krakkarnir litu öðru vísi á mig og mér fannst ég vera hluti af skrýtnu fjölskyldunni. En það breyttist með árunum þegar ég sá að ég var ekki ein og það voru aðrir krakkar sem höfðu upplifað það sama og ég.“

Emilía segist telja að það séu enn fleiri eins og hún sem ekki hafi fengið hjálp og segi engum frá vegna þess að þau óttist fordæmingu. „Þau vilja falla inn í hópinn. Það vilja allir falla inn í hópinn. Ég vil að krakkar hætti fordómum og fullorðið fólk líka. Við erum öll með einhverja fordóma og þurfum bara aðeins að slaka á.“ 

Áfengisneysla er ekki einkamál neytandans því hún getur haft mjög …
Áfengisneysla er ekki einkamál neytandans því hún getur haft mjög mikil áhrif á þá sem eru í kringum hann, ekki síst börn. AFP
Forvarna- og fræðsluhópurinn Náum áttum stóð fyrir fundinum þar sem …
Forvarna- og fræðsluhópurinn Náum áttum stóð fyrir fundinum þar sem rætt var um áhrif áfengisneyslu á aðra en neytandann sjálfan.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert