Á eingöngu að prjóna lopapeysur á Íslandi?

Lopapeysa.
Lopapeysa. mbl.is


Í kvöld fer fram málþingum um íslenskan menningararf og birtingarmynd hans í íslenskri hönnum. Umræða um hann hefur verið nokkuð áberandi að undanförnu.  Hún hefur þá gjarnan snúist um það hvaða skilyrðum hönnunin þurfi að lúta til að geta kallast íslensk.

Alþingismenn hafa meðal annars fjallað um málið. Skemmst er að minnast þess þegar Ásmundur Einar Daðason sagði að hann vildi að sett yrðu lög um að lopapeysur yrðu prjónaðar á Íslandi. Í kjölfarið spruttu upp umræður um hvar hyggilegast væri að framleiða lopapeysuna án þess að þjóðleg gildi hennar og séríslensk einkenni glötuðust í framleiðsluferlinu.

Samkvæmt fréttatilkynningu hafa ítrekað komið mál til Hönnunarmiðstöðvar sem varða hönnunarstuld. Mörg þeirra tengjast hönnun sem býr yfir sterkum tilvísunum til menningararfsins. Getur verið að hönnuðir og handverksfólk réttlæti stuldinn ef hönnunin er á einhvern hátt tengd því sem flokkast mætti undir menningararf? Er munur þar á? Hver á menningararfinn – og er hægt að eigna sér hann að einhverju leyti með því að vinna með hann eða vísa til hans? Hvað felst raunverulega hugtakinu hönnun?

Á málþinginu Menningararfur: þrætuepli og hreyfiafl í hönnun sem Hönnunarmiðstöð Íslands stendur fyrir í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og Listaháskóla Íslands i dag, fimmtudaginn 18. október kl 20:00 verður þetta viðfangsefni tekið fyrir ásamt því að rætt verður um hönnunarvernd og hönnunarstuld á vörum byggðum á íslenskum menningararfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert