Er afskaplega stolt af þjóðinni

Jóhanna Sigurðardóttir segist stolt af íslensku þjóðinni að hafa skilað …
Jóhanna Sigurðardóttir segist stolt af íslensku þjóðinni að hafa skilað þinginu þessari niðurstöðu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég er afskaplega ánægð með niðurstöðuna og kjörsóknina líka. Ég bjóst við að það yrði minna svo það er framar vonum. Þetta er mjög mikill sigur fyrir lýðræðisferlið,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra um niðurstöðurnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Silfri Egils á RÚV í dag.

„Það er komin afgerandi niðurstaða í mörg stór mál sem Alþingi hefur verið að glíma við frá lýðveldisstofnun. Nú stendur það upp á okkur stjórnmálamennina að klára þetta ferli. Ég er afskaplega stolt af þjóðinni að skila þinginu þessari niðurstöðu,“ sagði Jóhanna.

Hún sagðist vilja ná samstöðu meðal flokkanna um tímann sem vinnan tæki í þinginu.

„Ef vilji er fyrir hendi ættum við að geta náð þessu áður en þingi lýkur í vor og þá hefði ég haldið að það væri gott að þá færi málið í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða þingkosningunum þegar endanlega niðurstaðan er komin í þessu því einhverjum breytingum mun þetta hugsanlega taka.

Við erum náttúrlega mjög bundin af þessari niðurstöðu sem þarna er fengin af því að hún er svo afgerandi í þessum málum,“ sagði Jóhanna.

„Við skuldum þjóðinni að klára þetta mál“

„Ég tel að við getum komið í veg fyrir þetta fari að leysast upp í eitthvert þras ef við setjumst niður og ákveðum hvað við tökum langan tíma í þetta ferli. Eitthvað getur þurft að sitja á hakanum í staðinn.

Ég met þetta sem eitt það stærsta mál sem við þurfum að afgreiða á þinginu núna og við skuldum þjóðinni það að klára þetta mál. Við höfum verið með stjórnarskrá til bráðabirgða í 50-60 ár og það eru skilaboðin frá þjóðinni til okkar,“ sagði Jóhanna.

„Höfum fremur þröngt svigrúm til að gera nokkrar breytingar“

„Ég held að við höfum miðað við þessa niðurstöðu fremur þröngt svigrúm til að gera nokkrar breytingar. Eftir hálfan mánuð býst ég við að við verðum komin með í hendurnar fullbúið frumvarp eins og þjóðin, meirihluti hennar sem tók þátt í atkvæðagreiðslunni, vill sjá það. Ég tel ekki að þjóðin hafi gefið stjórnmálamönnum mikið svigrúm til að breyta þeim tillögum sem stjórnlagaráð hefur sett fram,“ sagði Jóhanna.

„Ég vil undirstrika það að ég hef í áratugi barist fyrir því að fá breytingar á stjórnarskrá og 1998 flutti ég tillögur um stjórnlagaþing. Mér þætti það mjög skemmtilegt að stjórnarskráin yrði kláruð á meðan ég á sæti á þingi. En það er ekki stóra málið heldur að koma þessu máli í höfn,“ sagði Jóhanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert