Geir Haarde kærir til Mannréttindadómstóls

Andri Árnason lögmaður og Geir H. Haarde skjólstæðingur hans í …
Andri Árnason lögmaður og Geir H. Haarde skjólstæðingur hans í landsdómi. mbl.is/Golli

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur ákveðið að láta reyna á rétt sinn fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu í Strassborg og hefur lögmaður hans þegar sent dómstólnum ítarlegt kæruskjal þar sem „farið er yfir málsatvik og dæmi um stórlega aðfinnsluverð vinnubrögð Alþingis, saksóknara þess, Landsdóms og fleiri sem við sögu komu,“ segir í yfirlýsingu sem Geir H. Haarde hefur sent frá sér. „Að mínum dómi hefur íslenska ríkið í þessu máli brotið gegn ákvæðum í Mannréttindasáttmála Evrópu er lúta að réttlátri málsmeðferð fyrir dómi og reglunni um enga refsingu án laga. Undir slíku á ég erfitt með að sitja en mikilvægara er þó að hafið sé yfir allan vafa að íslenskt réttarfar og meðferð ákæruvalds í máli sem þessu standist þær kröfur sem gerðar eru til mannréttinda og réttlátrar málsmeðferðar í Mannréttindasáttmálanum.“

Yfirlýsing Geirs í heild:

Um þessar mundir er hálft ár liðið frá því dómur féll í Landsdómi í máli sem Alþingi höfðaði gegn mér í september 2010 fyrir meintar misgjörðir í aðdraganda bankahrunsins haustið 2008.

 Naumur meirihluti Alþingis höfðaði málið gegn mér með sex ákæruliðum og krafðist þess að ég yrði dæmdur til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar. Tveimur af veigamestu ákæruliðunum var vísað frá dómi haustið 2011 og í lokadómi Landsdóms 23. apríl sl. var ég sýknaður af öðrum þeim liðum sem beint vörðuðu bankahrunið. Fimm ákæruatriðum af sex var því ýmist vísað frá dómi eða ég sýknaður af þeim. Ég vann því málið í öllu efnislegu tilliti og það er mér mjög mikilvægt að hinum pólitíska meirihluta á Alþingi hafi ekki tekist ætlunarverk sitt að þessu leyti. 

 Ég var hins vegar sakfelldur fyrir þann ákærulið að hafa ekki sett „mikilvæg stjórnarmálefni“ með formlegum hætti á dagskrá ríkisstjórnarfunda eða „tekið þau upp“ á þeim vettvangi eins og segir í dóminum. Í þessu fylgdi ég áratugalangri venju en níu dómarar af fimmtán töldu mig hafa farið gegn formreglum í 17. grein stjórnarskrárinnar um þetta efni. Sex dómarar vildu hins vegar einnig sýkna mig af þessum ákærulið.

 Sakfelling þessi var að mati dómaranna sjálfra svo léttvæg að hún var ekki talin kalla á refsingu og að auki var allur málsvarnarkostnaður felldur á ríkissjóð. 

 Í máli þessu var hátt reitt til höggs en höggið geigaði. Það var hins vegar dýrkeypt því upplýst hefur verið á Alþingi að heildarkostnaður hins opinbera af málinu er ríflega 184 m. kr.

Í aðdraganda og við meðferð þessa einstæða dómsmáls reyndi í fyrsta skipti á ákvæði laga um Landsdóm, sem upphaflega voru sett árið 1905, og samspil þeirra við ýmsar grunnreglur hins íslenska réttarríkis eins og þær endurspeglast í nýlegum lögum um sakamál.

 Mjög margt í því ferli var frá byrjun aðfinnslu- og ámælisvert að mínu mati og verjanda míns og stóðst ekki þær nútímakröfur um réttarfar og vernd mannréttinda sem ég átti rétt á.  Þá tel ég að sakfelling meirihluta réttarins um áðurnefnt formsatriði, þótt léttvæg sé, fái ekki staðist og sé byggð á ósönnuðum getgátum.

 Ég hef þess vegna ákveðið að láta reyna á rétt minn fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu í Strassborg og hefur Andri Árnason lögmaður minn þegar sent dómstólnum ítarlegt kæruskjal þar sem farið er yfir málsatvik og dæmi um stórlega aðfinnsluverð vinnubrögð Alþingis, saksóknara þess, Landsdóms og fleiri sem við sögu komu. Að mínum dómi hefur íslenska ríkið í þessu máli brotið gegn ákvæðum í Mannréttindasáttmála Evrópu er lúta að réttlátri málsmeðferð fyrir dómi og reglunni um enga refsingu án laga. Undir slíku á ég erfitt með að sitja en mikilvægara er þó að hafið sé yfir allan vafa að íslenskt réttarfar og meðferð ákæruvalds í máli sem þessu standist þær kröfur sem gerðar eru til mannréttinda og réttlátrar málsmeðferðar í Mannréttindasáttmálanum.

Mannréttindadómstóllinn er mjög ásetinn dómstóll og geri ég mér ekki grein fyrir því hverjar líkur eru á því að hann fallist á að taka þetta mál til meðferðar, fyrst ég vann það í öllu efnislegu tilliti. Sömuleiðis er óvíst hve langan tíma málsmeðferðin gæti tekið. En í ljósi hinnar miklu sérstöðu þessa máls í íslenskri réttarsögu og þess fordæmis sem pólitísk réttarhöld af þessu tagi gætu gefið annars staðar í Evrópu, sérstaklega í ljósi fjármálakreppunnar sem þar geisar, tel ég að mér sé skylt að láta á málið reyna fyrir æðsta dómstóli á sviði mannréttinda í Evrópu.

Geir H. Haarde ásamt verjanda sínum, Andra Árnasyni eftir uppkvaðningu …
Geir H. Haarde ásamt verjanda sínum, Andra Árnasyni eftir uppkvaðningu landsdóms. mbl.is/Rax
Geir Haaarde og eiginkona hans, Inga Jóna Þórðardóttir, í Þjóðmenningarhúsinu …
Geir Haaarde og eiginkona hans, Inga Jóna Þórðardóttir, í Þjóðmenningarhúsinu meðan að málið var flutt. mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert