Frumvarp um lækkun húshitunarkostnaðar

Einar Kristinn Guðfinnsson.
Einar Kristinn Guðfinnsson. mbl.si/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Fjórtán þingmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum, undir forystu Einars Kristins Guðfinnssonar, hafa lagt fram frumvarp um jöfnun húshitunarkostnaðar. Frumvarpið er byggt á tillögum stjórnskipaðrar nefndar, með aðkomu sveitarfélaga þar sem húshitunarkostnaður er hvað hæstur, sem lagði fram tillögur sínar um síðustu áramót.

Í fréttatilkynningu er haft eftir Einari að ekkert slíkt mál hafi verið að finna á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar þó einstakir ráðherrar hefðu lýst því yfir að vænta mætti þess að ríkisstjórnin legði fram tillögur sínar í framhaldi af niðurstöðu nefndarinnar.

Þær tillögur sem vísað er í byggjast á vinnu nefndar sem ríkisstjórnin skipaði á fundi sínum á Ísafirði 5. apríl árið 2011. Nefndin skilaði áliti sínu í desember sama ár.  Nefndin kom fram með ýmsar tillögur sem allar miða að því að lækka húshitunarkostnað þar sem hann er hæstur.

Helstu tillögur nefndarinnar og þar með meginefni frumvarpsins eru:

1.  Grundvallarbreyting verði gerð á niðurgreiðslukerfinu þannig að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði niðurgreidd að fullu. Kerfið verður þá sjálfvirkt þar sem öllum breytingum á verði á raforkudreifingu yrði mætt með sjálfvirkum hætti án þess að sérstök ákvörðun þurfi að liggja þar að baki.

2. Jöfnunargjald verði sett á hverja framleidda kWst sem næmi þeim kostnaði sem nauðsynlegur er á hverjum tíma til að niðurgreiða að fullu flutning og dreifingu raforku til upphitunar íbúðarhúsnæðis.

3. Jöfnunargjald verði lagt á hitaveitur, svipað og á raforkuframleiðslu, sem geti ávallt tryggt viðgang og vöxt jarðvarmaveitna.

Um 10% þjóðarinnar búa við hinn háa húshitunarkostnað. Hann hefur á undanförnum árum hækkað mjög mikið m.a. samfara því að dregið hefur verið úr niðurgreiðslum. Lætur nærri að þessi kostnaðarliður heimilanna hafi hækkað um allt að 40% á örfáum árum.  Er þessi  útgjaldaliður nú orðinn mjög íþyngjandi í heimilisbókhaldi þess hluta þjóðarinnar sem við þetta ástand býr.

Mjög hefur verið kallað eftir úrbótum á þessu sviði og má segja að á Alþingi sé þverpólitískur stuðningur við það, eins og listi flutningsmanna ber með sér, segir Einar í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert