Flokkadrættir og klækir verði að víkja

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Mikilvæg og söguleg þáttaskil urðu með þjóðaratkvæðagreiðslunni um síðustu helgi um tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, í skýrslu sinni á Alþingi í dag um kosninguna.

Forsætisráðherra lagði áherslu á að helmingur kosningabærra manna hefði tekið þátt í þjóðaratkvæðinu og að skilaboð þjóðarinnar væru skýr. Klára yrði málið með sóma á Alþingi og að trúverðugleiki þingsins væri í húfi í þeim efnum. Þá sagði Jóhanna ennfremur að þjóðinni hefði þar með tekist það sem Alþingi hefði mistekist sem væri heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

Jóhanna sagði ennfremur að ná þyrfti samkomulagi í þinginu um vinnubrögð og tímaramma verksins þannig að ljúka mætti því fyrir næstu þingkosningar. Flokkadrættir og klækir stjórnmálanna yrðu að víkja fyrir almannahag í þeirri vinnu. Þjóðin gæti þar með kveðið upp endanlegan dóm í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða næstu þingkosningum. Ný stjórnarskrá gæti þá hugsanlega tekið gildi 17. júní á næsta ári.

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, lagði áherslu á það í ræðu að þjóðaratkvæðagreiðslan um tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, sem fram fór um síðustu helgi, hefði tekist vel. Kosningaþátttaka hefði verið góð og þjóðin hefði tekið til sinna ráða þrátt fyrir áróður fyrir öðru og mætt á kjörstað og sent skýr skilaboð um að hún vildi nýja stjórnarskrá.

Málið verði unnið í sem mestri sátt

Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði ljóst að tillaga stjórnlagaráðs gæti ekki orðið óbreytt að nýrri stjórnarskrá enda hefði meðal annars legið fyrir áður en þjóðaratkvæðið færi fram að öll meðferð málsins væri eftir á Alþingi. Lagði hún áherslu á að málið yrði unnið í sem mestri sátt í þinginu og sagði að sjálfstæðismenn myndu beita sér fyrir því.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, lagði áherslu á að þjóðaratkvæðið hefði ekki verið bindandi fyrir alþingismenn og vísaði ennfremur í ákvæði stjórnarskrárinnar um að þingmenn væru aðeins bundnir af sannfæringu sinni en ekki reglur frá kjósendum sínum. Hún sagði framsóknarmenn hlynnta breytingum á núverandi stjórnarskrá en þeir hafi hins vegar aldrei talað fyrir nýrri stjórnarskrá. Þá lagði hún ennfremur áherslu á að það hefði ekki verið stjórnarskráin sem valdið hefði bankahruninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert