Kæra framlög til Framsóknarflokksins

Merki Framsóknarflokksins.
Merki Framsóknarflokksins.

Hópur sem kallar sig áhugamannahóp um fjármál stjórnmálasamtaka hefur kært til lögreglu ársreikning Framsóknarflokksins fyrir árið 2011.

Hópurinn kærði til lögreglunnar ársreikninga Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar fyrir árin 2007, 2009 og 2010 með hliðsjón af ársreikningum Síldarvinnslunnar hf. og tengdra aðila, það er Samherja, Gjögurs og Samvinnufélags útgerðarmanna.

Lögreglan taldi ekki efni til að hefja lögreglurannsókn „þar sem hin meintu brot eru nú fyrnd“.

Í fréttatilkynningu frá hópnum segir: „Þegar ársreikningur Framsóknarflokksins fyrir árið 2011 er tekinn til skoðunar með hliðsjón af ársreikningi Síldarvinnslunnar hf. fyrir árið 2011 kemur í ljós að framlag Síldarvinnslunnar og tengdra aðila til Framsóknarflokksins er yfir leyfilegum mörkum.  Á árinu 2011 var framlag Síldarvinnslunnar til Framsóknarflokksins 200 þúsund, framlag Gjögurs til flokksins var 300 þúsund og framlag Samherja 350 þúsund.  Samtals 850 þúsund.  Samkvæmt ársreikningi Síldarvinnslunnar fyrir árið 2011 átti Samherji 45% í Síldarvinnslunni og Gjögur 34%.  Með vísan til þess hvernig tengdir aðilar eru skilgreindir í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka verður ekki betur séð en að brotið hafi verið gegn ákvæðum um hámarksframlög lögaðila þar sem framlög tengdra aðila skuli teljast saman. 

Hið meinta brot hefur verið kært og þess krafist að lögreglan hefji rannsókn vegna þess. Þá hefur þess einnig verið krafist að lögreglan rannsaki hvort fleiri dæmi séu um að framlög tengdra aðila til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda hafi verið yfir leyfilegum mörkum frá því lögin tóku fyrst gildi,“ segir í tilkynningu sem forsvarsmenn hópsins, Baldvin Björgvinsson, Gunnar Skúli Ármannsson, Sólveig Anna Jónsdóttir og
Þórður Björn Sigurðsson, rita undir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert