Aðalfundurinn endaði í upplausn

Hörð átök urðu á aðalfundi Ferðamálasamtaka Suðurnesja í kvöld.
Hörð átök urðu á aðalfundi Ferðamálasamtaka Suðurnesja í kvöld. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Hörð átök urðu á aðalfundi Ferðamálasamtaka Suðurnesja í kvöld. Lauk fundinum með því að fundarstjóri, sem jafnframt er formaður samtakanna, sleit fundi áður en stjórn hafði verið kosin. Annar fundur hefur verið boðaður 20. nóvember.

Kristján Pálsson, fyrrverandi alþingismaður, er formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja, en hann er jafnframt framkvæmdastjóri Markaðstofu Suðurnesja.

Sigurbjörn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kaffi Duus í Reykjanesbæ, segir að Kristján hafi verið kosinn fundarstjóri á fundinum. Hann hafi jafnframt gert grein fyrir störfum stjórnar og reikningum. Þegar kom að kosningu formanns og ljóst varð að Kristján myndi fá mótframboð hafi hann hins vegar ekki viljað leyfa öllum á fundinum kjósa og eftir talsvert stapp hafi hann slitið fundi.

Sigurbjörn segir að í kjölfarið hafi meirihluti stjórnar ákveðið að úrskurða fundinn ólöglegan og boða til nýs fundar. Sigurbjörn segir ákvörðun um að úrskurða fundinn ólöglegan undarlega í ljósi þess að Kristján hafi fyrr á fundinum sagt að fundurinn væri löglegur og hann hafi m.a. borið reikninga undir fundarmenn til samþykkis.

Kristján Pálsson segir að fundurinn hafi verið úrskurðaður ólöglegur vegna þess að á fundinum hafi verið menn sem ekki voru í samtökunum og hafi því ekki haft atkvæðisrétt. Þessir menn hafi ekki greitt félagsgjald.

Sigurbjörn segir að lög félagsins geri vissulega ráð fyrir að innheimt sé félagsgjald, en það hafi ekki verið innheimt í nokkur ár.

Kristján segir rétt að félagsgjaldið hafi ekki verið innheimt, en það sé hins vegar til listi yfir félagsmenn og það hafi verið menn á fundinum sem ekki eru á þeim lista.

Sigurbjörn segir að allir sem mætt hafi á fundinn hafi tengsl við ferðaþjónustufyrirtæki á Suðurnesjum. Hann segir mikla óánægju með framkvæmd fundarins.

Stjórn samtakanna samþykkti í kvöld að boða til nýs fundar 20. nóvember og að þeir einir hafi atkvæðisrétt á fundinum sem greitt hafi 5.000 krónur í félagsgjald.

Kristján Pálsson.
Kristján Pálsson. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert