Blanda saman stjórnsýslu og pólitík

Málið snérist um aðkomu stjórnvalda að sölunni á HS Orku.
Málið snérist um aðkomu stjórnvalda að sölunni á HS Orku. mbl.is/Ómar Óskarsson

Umboðsmaður Alþingis gagnrýnir forsætisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fyrir hvernig staðið var að stjórnsýsluákvörðunum við sölu Geysir Green Energy ehf. á hlutum í HS Orku hf. til Magma Energy Sweden AB. Umboðsmaður segir ákvarðanir hafi „ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti“.

Umboðsmaður segir ennfremur að í yfirlýsingu stjórnvalda og bréfum ráðherra vegna málsins hafi þess ekki nægjanlega verið gætt að gera skýran greinarmun á stjórnsýslulegum hluta málsins sem laut að aðilum þess og vinnu við undirbúning að pólitískri stefnumörkun og tillögum um hugsanlegar lagabreytingar.

Pólitík eða stjórnsýsla?

Geysir Green leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir háttsemi íslenskra stjórnvalda í tengslum við sölu fyrirtækisins á hlutum þess í HS Orku hf. til Magma Energy Sweden AB á árinu 2010.

Í kvörtuninni kom fram að lögskipuð nefnd um erlenda fjárfestingu, sem starfar á grundvelli laga frá árinu 1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, hefði með tveimur álitum komist að þeirri niðurstöðu umrædd fjárfesting gengi ekki gegn ákvæði laganna þar sem fjallað er um fjárfestingu erlendra aðila í virkjunarréttindum vatnsfalla og jarðhita. Í kjölfarið hefðu stjórnvöld, þrátt fyrir niðurstöðu nefndarinnar, lýst því yfir að þau efuðust um lögmæti kaupanna og hefðu ekki tekið endanlega afstöðu til þeirra. Stjórnvöld hefðu auk þess skipað nefnd um orku- og auðlindamál sem hefði m.a. verið falið að meta lögmæti umræddra viðskipta.

Athugun umboðsmanns beindist annars vegar að lagagrundvelli fyrir skipan nefndar um orku- og auðlindamál sem var m.a. falið að meta lögmæti umræddra viðskipta. Hins vegar laut athugun umboðsmanns að framgöngu stjórnvalda gagnvart Geysi Green Energy ehf. með þeim yfirlýsingum og bréfum sem þau sendu frá sér í tengslum við málið.

Umboðsmaður Alþingis segir að út frá skýringum stjórnvalda megi ráða að nefnd um orku- og auðlindamál hafi aðallega verið ætlað að leggja grundvöll að pólitískri stefnumótun ríkisstjórnarinnar en ekki að hafa áhrif á umrædd viðskipti. Í ljósi skýringa stjórnvalda taldi umboðsmaður ekki tilefni til athugasemda um lagagrundvöll fyrir skipun nefndar um orku- og auðlindamál.

Í ljósi atvika máls og skýringa stjórnvalda fjallaði umboðsmaður því næst um tvíþætt hlutverk ráðherra í íslenskri stjórnskipan. Umboðsmaður benti á að mikilvægt væri að ráðherrar gerðu skýran greinarmun hverju sinni, gagnvart aðilum stjórnsýslumála, á því hvort þeir væru að fjalla um málin sem æðstu handhafar stjórnsýsluvalds í viðkomandi máli eða lýsa viðhorfum sínum og setja fram pólitíska stefnumörkun. Umboðsmaður benti á að stjórnvöldum hefði mátt vera ljóst á þessum tíma að aðilar málsins teldu vafa leika á í hvaða farveg mál þeirra hefði verið sett. Í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar benti umboðsmaður á að ákvarðanir og yfirlýsingar stjórnvalda, sem beint væri til aðila máls, yrðu að vera skýrar og glöggar að efni til. Ef stjórnvald fjallaði um tiltekið mál þyrfti að vera skýrt á hvaða lagagrundvelli það væri gert og hvaða áhrif það hefði á fyrri afgreiðslu stjórnvalda. Í samræmi við þessi sjónarmið og vandaða stjórnsýsluhætti var niðurstaða umboðsmanns sú að dregist hefði um of að efnahags- og viðskiptaráðuneytið sendi aðilum máls bréf þar sem staða málsins var skýrð og áréttað að fyrri lyktir málsins stæðu af hálfu stjórnvalda.

Ekki vönduð stjórnsýsla

Umboðsmaður fjallaði að lokum um orðalag í yfirlýsingum og bréfum stjórnvalda í tengslum við mál Geysis Green Energy ehf. Í ljósi atvika máls taldi umboðsmaður að nánar tiltekið orðalag stjórnvalda hefði verið til þess fallið að skapa óvissu um réttarstöðu aðila að umræddum viðskiptum. Umboðsmaður ítrekaði mikilvægi þess að ráðherrar gerðu skýran greinarmun á tvíþættu hlutverki sínu. Ekki hefði verið ljóst gagnvart þeim sem átt höfðu viðskipti með hlutabréfin hvaða hlutverki nefnd um orku- og auðlindamál gegndi í málinu, í hvaða farveg málið hefði verið sett eða hvort stjórnvöld hefðu hug á að stöðva eða ógilda umrædd viðskipti með einhverjum hætti. Umboðsmaður benti á að þegar lögbundnu ferli máls lyki hefðu aðilar þess hagsmuni af því og yrðu að geta treyst á að úr málum þeirra hefði verið leyst í samræmi við gildandi lög. Samskipti stjórnvalda við borgarana yrðu að vera með þeim hætti að sannarlega væri staðið við þær yfirlýsingar um málalok sem gefnar væru með skýrum og ótvíræðum hætti. Að öðrum kosti kynnu stjórnvöld að skapa óviðunandi réttaróvissu um líf manna og hagsmuni sem væri ekki í samræmi við grundvallarsjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti. Niðurstaða umboðsmanns var því sú að nánar tiltekið orðalag stjórnvalda í yfirlýsingum og bréfum, sem beindist að lögmæti og hugsanlegu inngripi stjórnvalda í umrædd viðskipti, hefði ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til forsætisráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sem hefur tekið við verkefnum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins að þessu leyti, að þau tækju mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu í framtíðarstörfum sínum.

Álit Umboðsmanns Alþingis

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert