Jafnrétti mest á Íslandi

Jafnrétti er mest á Íslandi samkvæmt nýrri skýrslu World Economic Forum. Ísland hefur skipað fyrsta sæti listans undanfarin ár.

Finnland er í öðru sæti og Noregur í því þriðja. Í fyrra var Noregur í öðru sæti listans en Finnland í því þriðja.

Svíar eru í fjórða sæti líkt og í fyrra en Írar skipa fimmta sætið.

Þetta er í sjöunda sinn sem Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum) gefur út skýrslu um stöðu kynjajafnréttis í heiminum og fjórða árið í röð sem Ísland skipar sér í efsta sæti þeirrar úttektar. Lagt er mat á stöðuna á fjórum sviðum, þ.e. út frá aðgengi að heilbrigðisþjónustu, aðgengi að menntun, þátttöku í stjórnmálum og efnahagslegri stöðu þar sem horft er til atvinnuþátttöku, launajafnréttis, heildaratvinnutekna og hlutfalls kynja meðal stjórnenda og sérfræðinga.

Í desember 2011 skipaði velferðarráðherra framkvæmdanefnd um launajafnrétti kynjanna sem meðal annars var falið að samhæfa aðgerðir til að draga úr launamisrétti kynja og vinna að gerð tímasettrar aðgerðaáætlunar í því skyni, auk þess að ljúka við gerð jafnlaunastaðals. Var þetta gert í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.

Aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynjanna er nú tilbúin og var hún samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar 28. september síðastliðinn. Í áætluninni eru lögð til sautján verkefni sem öllum er ætlað að stuðla að launajafnrétti kynjanna á íslenskum vinnumarkaði og snúa jafnt að ríkinu sem atvinnurekanda og samfélaginu í heild, segir í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu en síðdegis í dag mun Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, kynna áætlunina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert