Taka ákvörðun bráðlega um eftirlitsflug

F-18 Hornet orrustuþota eins og finnski flugherinn notar.
F-18 Hornet orrustuþota eins og finnski flugherinn notar. Wikipedia

Finnsk stjórnvöld munu taka ákvörðun um það í byrjun næsta mánaðar hvort Finnland tekur þátt í fyrirhuguðu norrænu samstarfsverkefni um loftrýmisgæslu við Ísland. Þetta er haft eftir Carl Haglund, varnarmálaráðherra Finnlands, á fréttavef finnska dagblaðsins Helsingin Sanomat.

Fram kemur í fréttinni að sjálfur sé Haglund jákvæður fyrir þátttöku Finna í verkefninu en umræða fór fram í finnska þinginu í síðustu viku um það hvort þátttakan ætti einungis að vera bundin við æfingar í íslensku lofthelginni eða sömuleiðis eftirlit með flugvélum sem færu um loftrýmið í kringum Ísland en gerðu ekki grein fyrir ferðum sínum.

Haglund telur það ekki spurningu að Finnar ættu að taka þátt í eftirlitsfluginu enda yrði það þeim meira í hag segir í fréttinni. Þá segir ennfremur að sænsk stjórnvöld muni að sama skapi taka ákvörðun um það á næstunni hvort Svíar taki þátt í verkefninu. Hins vegar hafi Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, tekið vel í málið.

Hins vegar er haft eftir Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra landsins, að þar sem eftirlit með óþekktum flugvélum sé fyrst og fremst á könnu NATO ættu annað eða bæði norrænu NATO-ríkin, Danmörk og Noregur, að koma að þeim málum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert