Þrengt að lögreglu þegar síst skyldi

„Það vekur furðu lögreglumanna að á sama tíma og upplýsingar liggja fyrir um aukningu skipulagðrar glæpastarfsemi og að slík starfsemi hafi náð að skjóta rótum hér á landi skuli innanríkisráðherra fara fram með frumvarp sem þrengi að og jafnvel skerði heimildir lögreglu til að stemma stigu við útbreiðslu slíkrar starfsemi,“ segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, í samtali við mbl.is.

Tilefnið er frumvarp sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur lagt fram á Alþingi þar sem sem gert er ráð fyrir því að heimildir lögreglu til þess að hlera síma verði þrengdar.

Snorri bendir á að lögreglan hafi lengi talað fyrir því að henni verði veittar hliðstæðar forvirkar rannsóknarheimildir og lögregla á hinum Norðurlöndunum hafi og ennfremur kallað eftir auknu eftirliti með slíkum heimildum sem og þeim sem hún hafi yfir að ráða í dag, þar á meðal auknu eftirliti ríkissaksóknara, til þess að tryggja gegnsæi í starfsemi lögreglunnar.

„Eins og alþjóð veit hefur verulega verið þrengt að starfsemi lögreglu undanfarin ár, bæði er varðar fjárveitingar og mannskap, og það er ljóst, ef það er rétt sem fram kemur í greinargerð með þessu frumvarpi innanríkisráðherra að verið sé að þrengja að þessum heimildum lögreglu, að þessar lagabreytingar eru síst til þess fallnar að auðvelda lögreglu að sinna því lögbundna hlutverki sem henni er ætlað,“ segir Snorri.

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert