Ríkisstjórnarfundir ekki hljóðritaðir

Ekki kemur til þess að ríkisstjórnarfundir verði hljóðritaðir en samþykkt var á Alþingi í dag frumvarp til breytinga á lögum um Stjórnarráð Íslands þar sem meðal annars var fallið frá því.

Frumvarpið var samþykkt með 17 atkvæðum gegn 5 í þriðju umræðu um málið en samþykkt voru afbrigði í þinginu í morgun til þess að hægt væri að afgreiða það í dag. 12 þingmenn sátu hins vegar hjá við atkvæðagreiðsluna.

Talsverðar umræður sköpuðust um málið á Alþingi og voru sumir þingmenn ósáttir við þá ákvörðun að falla frá hljóðritun fundanna og þar á meðal Þráinn Bertelsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

Gerði Þráinn meðal annars athugasemd við fullyrðingar þess efnis að ekki væri til staðar sá tækjabúnaður sem þyrfti til þess að taka upp ríkisstjórnarfundi. Tók hann síðan upp farsímann sinn og sagðist reiðubúinn að gefa hann til þess verks enda nýttist hann ágætlega til slíkrar upptöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert