Gagnrýnir forseta Alþingis

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason mbl.is/Ómar Óskarsson

Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar Alþingis, gagnrýnir Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis á vefritinu Smugunni í dag.

„Það er pínlegt fyrir þingið að forseti þingsins skuli hafa tekið þessa afstöðu og ekki reynt, hið minnsta að setjast niður og ræða málin við þingmenn og þær þingnefndir sem í hlut eiga,“ segir Björn Valur Gíslason formaður fjárlaganefndar Alþingis. Hann segir að allt sé óbreytt í samskiptum Ríkisendurskoðunar og þingsins. Þar sé trúnaðarbrestur.

Ásta Ragnheiður hefur ákveðið að hraða úttekt á Ríkisendurskoðun sem stendur yfir þessa mánuðina af hálfu ríkisendurskoðun í Hollandi, Svíþjóð og Noregi.

„Forseti þingsins ákvað að gera þennan vandræðagang að alþjóðlegu vandamáli og vísa þessu til annarra landa án þess að ráðfæra sig við neinn nema ríkisendurskoðanda,“ segir Björn Valur. „Annað hvort veit forseti Alþingis ekki um hvað úttektin snýst eða hefur fengið rangar upplýsingar sem koma þessu tiltekna máli ekkert við. Við höldum auðvitað okkar striki en þetta voru vonbrigði. Forseti þingsins hefði getað valið að standa að málinu að myndugleika til að reyna að endurbyggja traust á þinginu og stofnuninni. Mér fannst þetta vond ákvörðun og hef sagt henni það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert