Norðmenn að taka fram úr Íslendingum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ávarpaði þing framsóknarmanna í NA-kjördæmi …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ávarpaði þing framsóknarmanna í NA-kjördæmi sem haldið er í Mývatnssveit. mbl.is/Birkir Fanndal

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í ræðu á kjördæmisþingi flokksins í NA-kjördæmi að óvissa í sjávarútvegsmálum gerði það að verkum að við værum að dragast aftur úr Norðmönnum.

Sigmundur Davíð sækist eftir að leiða lista flokksins í NA-kjördæmi. Ræða hans á þinginu bar þess merki að hann var að tala til sinna flokksmanna og minna þá á ýmis baráttumál flokksins. Hann talaði um sögu flokksins og varði drjúgum tíma til að fjalla um hagsmuni landsbyggðarinnar og möguleika landbúnaðarins sem hann sagði mikla ef rétt væri á málum haldið.

„Fullkomin óvissa“ í sjávarútvegi

Sigmundur Davíð gagnrýndi stjórnvöld fyrir stefnu í sjávarútvegsmálum. „Undanfarin ár hefur þessi undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar búið við fullkomna óvissu um framtíðina. Afleiðingin er sú að við Íslendingar erum farnir að dragast aftur úr Norðmönnum, helstu keppinautum okkar í sjávarútvegi.

Þótt sjómönnum og fiskverkafólki hafi fækkað frá því sem áður var þá hafði störfum í greinum sem tengjast sjávarútvegi, störfum í sjávarklasanum svokallaða, fjölgað jafnt og þétt þar til óvissan um stöðu greinarinnar varð algjör,“ sagði Sigmundur Davíð.

Hann vék að umfjöllun Útvegsblaðsins um sjávarklasann fyrr á árinu. „Þar var birt spá, sem tók mið af þróuninni í Noregi, þar sem áætlað var að fjöldi starfa í sjávarklasanum á Íslandi myndi meira en þrefaldast fyrir árið 2025 ef greinin nyti stöðugleika og sömu starfsskilyrða og í Noregi.

Höfum í huga að það eru ekki nema rétt rúmlega 12 ár til ársins 2025. Viljum við að þúsundir Íslendinga flytjist til Noregs og framleiði verðmæti þar eða viljum við nota tækifærin sem hér eru til að skapa þúsundir nýrra starfa á Íslandi?“

Bindur miklar vonir við olíuleit á Drekasvæðinu

Sigmundur Davíð fjallaði einnig um olíuleit á Drekasvæðinu, en hann sagði að þar gætu Íslendingar áður en langt um líður veitt Norðmönnum samkeppni.

„Nú hefur verið staðfest að olíu er að finna í íslenskri lögsögu. Þessi fullyrðing, að Íslendingar hafi fundið olíu, hljómar hálfundarlega í ljósi þess hversu lítið hefur verið fjallað um málið hér á landi, en það er engu að síður staðreynd.

Að sjálfsögðu er rétt að hafa varann á. En frá því fyrir þremur árum þegar við framsóknarmenn fórum að ræða um mikilvægi þess að taka olíuleit föstum tökum hafa verið gerðar hreint út sagt stórfenglegar uppgötvanir á því sviði.

Á sínum tíma fullyrti helsti sérfræðingur Norðmanna um Jan Mayen-hrygginn, Terje Hagevang, að rannsóknir gæfu til kynna að olíu og gas væri að finna á Drekasvæðinu.

Það var mat Hagevangs að ef forsendur sínar reyndust réttar myndi Jan Mayen-hryggurinn og Drekasvæðið hafa að geyma álíka magn af olíu og gasi og leynist í Noregshafi.

Nú hafa nýlegar rannsóknir staðfest að í fyrsta lagi er olíu að finna á Drekasvæðinu en jafnframt að jarðlögin eru þeirrar gerðar sem Hagevang taldi forsendu þess að olíuna og gasið væri að finna í vinnanlegum lindum.

Ef það fyndist vinnanleg olíulind í lögsögu Íslands myndi það strax hafa mikil og jákvæð áhrif fyrir landið. Vaxtakostnaður ríkisins myndi lækka og fjárfesting aukast til muna,“ sagði Sigmundur Davíð og benti á áhrifin sem olíuleitin hefði þegar haft í Færeyjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert