„Sá bara í afturendann á honum“

Holan sem lambhrúturinn var fastur í var ekki stór.
Holan sem lambhrúturinn var fastur í var ekki stór.

„Allt í einu heyri ég jarm,“ segir Þórður Birgisson í samtali við mbl.is en hann fann lambhrút á lífi síðdegis í dag sem var fastur í holu við Þeistareyki. Þórður var þar ásamt tveimur öðrum við rjúpnaveiðar. Hann segir að þetta hafi svo sannarlega verið ferð til fjár.

Þórður segist hafa heyrt jarm þegar hann gekk fram á jarðskjálftasprungu, svokallaðan vegg, er hann var við veiðar í dag. Hann leit í kringum sig en sá ekkert í grýttu landslaginu.

„Svo hætti hann að jarma þannig að ég vissi í sjálfu sér ekki hvað ég ætti að ganga á. Ég tók einn rjúpnahring en ákvað samt að koma þarna við aftur. Þá nánast geng ég á þessa holu og hann jarmar þarna um leið - þá sé ég bara í afturendann á honum.“

Þórður tekur fram að holan hafi verið lítil og það hafi því ekki verið nokkur leið fyrir lambhrútinn að losna úr prísundinni án aðstoðar. Lambhrúturinn hafi stungist með höfuðið á undan sér ofan í holuna og einfaldlega verið fastur.

„Fyrst fór Alli bróðir ofan í holuna en hann var bara of stór. Þannig að ég fór ofan í; gerði mig eins lítinn og ég mögulega gat og náði í báðar afturlappirnar. Þannig náði ég að draga hann upp.“

Dýrið var furðu sprækt segir Þórður aðspurður, en það streittist á móti þegar þremenningarnir reyndu að koma því upp á pallbifreiðina sem þeir voru á.

Þá bætir hann við að félagarnir hafi séð spor eftir kind í snjónum og því telji þeir að a.m.k. ein ær til viðbótar gangi laus á svæðinu.

Hrúturinn, sem Þórður hefur nú gefið nafnið Huldu-Máni, var merktur og gátu þeir því komið honum í réttar hendur. Þórður segir að Árni Þorbergsson í Brúnahlíð hafi að vonum verið sáttur þegar hann fékk lambhrútinn til baka.

Ekki er vitað hversu lengi dýrið sat fast í prísundinni. „Árni talaði um að hann væri svipaður í holdum og féð sem væri að finnast núna. Hann gæti þess vegna verið búinn að vera þarna heillengi,“ segir Þórður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert