Telja karla betri dómara og ráðherra

Strákar í 10. bekk telja að karlar séu betri í …
Strákar í 10. bekk telja að karlar séu betri í að vera dómarar og ráðherrar en konur betri í að þvo og sinna börnum og gamalmennum. AFP

Vaxandi íhaldssemi er meðal íslenskra unglinga um hlutverk kynjanna. Strákar eru sérstaklega íhaldssamir og telja t.d. að karlar séu mun hæfari en konur í að stjórna fyrirtækjum, vera hæstaréttardómarar eða ráðherrar. Unglingsstelpur telja frekar að kynin séu jafnhæf.

Eru karlar eða konur betri?

Viðhorf unglinga í 10. bekkjum grunnskóla til verkaskiptingar kynjanna var fyrst mæld árið 1992. Andrea Hjálmsdóttir vann síðan samanburðarrannsókn á 10. bekkjar árganginum árið 2006 og hefur nú aftur endurtekið rannsóknina, í 10. bekkjum allra grunnskóla á landinu árið 2011. Niðurstöðurnar voru kynntar á Þjóðarspegli Háskóla Íslands í dag, en þær benda til þess að íhaldssemi í viðhorfum til verkaskiptingar kynjanna hafi farið vaxandi meðal 10. bekkinga á liðnum 20 árum.

Unglingarnir voru spurðir hvort þau teldu karla eða konur betri í nokkrum tilteknum störfum og samkvæmt niðurstöðunum er tilhneigingin almennt sú að stelpurnar eru jafnréttissinnaðri en strákarnir íhaldssamari. Strákar telja frekar karla hæfari en konur, en stelpur telja kynin frekar jafnhæf. Bilið í afstöðu kynjanna hefur minnkað, þó ekki vegna þess að strákarnir hafi í auknum mæli orðið jafnréttissinnaðari, heldur vegna þess að 15 ára stelpur í dag eru íhaldssamari í viðhorfum en jafnöldrur þeirra 1992.

Karlar betri dómarar og ráðherrar

63% strákanna í rannsókninni töldu karla betri en konur í að vera hæstaréttardómarar. Áberandi munur er hér milli kynjanna, því 81% stelpna telur að bæði kynin séu jafnhæf sem dómarar. Andrea sagði þetta í sjálfu sér ekki koma á óvart í ljósi raunveruleikans, þar sem aðeins tveir af tólf dómurum Hæstaréttar eru konur. 

Þegar viðhorf til embættis ráðherra var kannað koma niðurstöðurnar hins vegar meira á óvart, í ljósi þess að hlutfall kynjanna í ríkisstjórn hefur verið jafnt síðan 2009. 78% stúlkna og 60% drengja töldu að kynin væru jafnhæf sem ráðherrar. Hins vegar töldu 36% drengja og 14% stúlkna að karlar væru betri sem ráðherrar.

Niðurstöðurnar eru sömuleiðis nokkuð sláandi þegar spurt er um hæfni kynjanna til að stýra stóru fyrirtæki. Tæplega helmingur drengjanna, eða 48%, taldi að karlar væru betur til þess fallnir að stýra fyrirtækjum. 73% stelpna telja hins vegar kynin jafnhæf til þess.

Konur betri í að þvo þvott og annast sjúka

Þegar spurt var um umönnunarstörf, að annast þá sem eru aldraðir eða veikir, þá breyttist afstaðan nokkuð og urðu stelpur þá íhaldssamari í svörum líkt og strákarnir. Þannig töldu sem dæmi 37% stelpna og 47% stráka að konur væru betur til þess fallnar að annast þá sem eru veikir.

Innan veggja heimilisins hefur jafnréttinu ekki verið náð ef marka má viðhorf unglinga í dag. Spurt var hvort þau teldu karla eða konur yfirleitt betri í að sinna ákveðnum störfum. Niðurstöðurnar voru m.a. að aðeins um 30% stráka og stelpna telja bæði kynin jafnfær um að hugsa um nýfædd börn.

Rúmur helmingur bæði stelpna og stráka telur að konur séu betri en karlar í að þvo þvott og bæði kynin telja að karlar séu betri í að sjá um viðhald á bílnum. 68% stelpna telja bæði kynin jafngóð í því að sjá sjá um matinn á heimilinu, en 56% stráka. Hvað varðar viðgerðir á heimilinu telja 70% stráka og 60% stelpna að karlar séu betri í þeim.

Jafnréttinu náð?

Kynin eru jafnhæf til að sjá um fjármál heimilisins að mati 66% stelpna, en 40% stráka og 23% stelpna telja karla betri í því. Þá sýndi rannsóknin að unglingar sem búa í sjávarþorpum eru marktækt íhaldssamari hvað varðar heimilisstörfin en aðrir.

Andrea segir það koma á óvart að unglingar í dag séu íhaldssamari en þeir voru árið 1992. „Við heyrum að gjarnan að jafnrétti sé rétt handan við hornið og það verði allt í lagi þegar komandi kynslóð tekur við, en sú virðist alls ekki vera raunin miðað við þetta.“

Jafnt kynjahlutfall varð í ríkisstjórn árið 2009 í fyrsta skipti …
Jafnt kynjahlutfall varð í ríkisstjórn árið 2009 í fyrsta skipti í sögunni. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert