Atvinnulausum fækkar

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

 Á þriðja ársfjórðungi 2012 voru að jafnaði 181.900 manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði og fækkaði um 0,3% frá sama tíma ári áður eða um 600 manns. Jafngildir þetta 81,2% atvinnuþátttöku. Fjöldi fólks utan vinnumarkaðar var 42.000, sem er fækkun um 1,6% frá fyrra ári eða um 700 manns. Atvinnuþátttaka karla var 84% og kvenna 78,4%. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar.

Á þriðja ársfjórðungi 2011 voru alls 182.500 á vinnumarkaði eða 81% atvinnuþátttaka og utan vinnumarkaðar voru 42,700. Atvinnuþátttaka karla var 84,4% og kvenna 77,6%.

Á vinnumarkaði eða til vinnuaflsins teljast bæði þeir sem eru starfandi og atvinnulausir. Atvinnuþátttaka er hlutfall starfandi og atvinnulausra (vinnuafl) af mannfjölda.

Á þriðja ársfjórðungi 2012 voru að meðaltali 9.200 manns án vinnu og í atvinnuleit eða 5% vinnuaflsins. Atvinnuleysi mældist 5,1% hjá körlum og 5% hjá konum. Fjöldi starfandi á þriðja ársfjórðungi 2012 var 172.700 manns eða 77,1% af mannfjölda. Hlutfall starfandi karla var 79,8% og starfandi kvenna 74,4%.
Þegar á heildina er litið fækkaði atvinnulausum um 1.500 frá þriðja ársfjórðungi 2011. Atvinnulausum konum fækkaði um 1.000 og atvinnulausum körlum um 500. Starfandi fjölgaði á þessu tímabili um 900.

Þriðjungur langtímaatvinnulaus

Af þeim sem voru atvinnulausir á þriðja ársfjórðungi 2012 voru að jafnaði 1.200 manns búnir að vera atvinnulausir í 1–2 mánuði eða 0,7% vinnuaflsins. Til samanburðar höfðu 1.600 manns verið atvinnulausir í 1–2 mánuði á þriðja ársfjórðungi 2011 eða 0,9% vinnuaflsins. Þeir sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur eru skilgreindir sem langtímaatvinnulausir. Á þriðja ársfjórðungi 2012 höfðu um 3.300 manns verið atvinnulausir svo lengi eða 1,8% alls vinnuaflsins. Þetta merkir að 35,6% allra atvinnulausra hafa verið atvinnulausir í ár eða meira. Á þriðja ársfjórðungi 2011 voru þeir sem höfðu verið atvinnulausir ár eða lengur um 3.100 manns sem er 1,7% vinnuaflsins eða 29,1% allra atvinnulausra.

Atvinnulausir teljast þeir sem voru án atvinnu í viðmiðunarviku könnunarinnar, þ.e. höfðu hvorki atvinnu né voru í vinnu (í eina klukkustund eða lengur) sem launþegi eða sjálfstætt starfandi, eru að leita að vinnu og geta hafið störf innan tveggja vikna eða hafa fengið starf sem hefst innan 3 mánaða. Einstaklingar sem eru ekki í vinnu en eru í námi flokkast atvinnulausir ef þeir uppfylla skilyrðin hér að ofan. Fólk telst vera starfandi ef það hefur unnið eina klukkustund eða meira í viðmiðunarviku könnunar eða verið fjarverandi frá starfi sem það gegnir að öllu jöfnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert