Heimild ESB til refsiaðgerða lögfest

mbl.is/Helgi Bjarnason

Reglugerð sem heimilar Evrópusambandinu að beita refsiaðgerðum gegn ríkjum sem það telur stunda ósjálfbærar veiðar á deilistofnum var undirrituð í síðustu viku af forseta Evrópuþingsins og fulltrúa Kýpur sem nú fer með forsætið innan sambandsins og hefur þar með tekið formlega gildi.

Haft er eftir írska Evrópuþingmanninum Pat Gallagher, sem átti frumkvæði að lagasetningunni, á fréttavefnum Donegaldaily.com að þar með væri framkvæmdastjórn Evrópusambandsins komin með verkfæri í hendurnar til þess að „grípa til harðra refsiaðgerða gegn ríkjum sem stunda ósjálfbærar veiðar eins og Íslandi og Færeyjum í tilfelli makrílsins í Norðaustur-Atlantshafi.“

Gallagher segir að gert hafi verið ráð fyrir því að makríllinn í Norðaustur-Atlantshafi myndi skila yfir einum milljarði evra í tekjur árið 2010 fyrir útgerðir innan Evrópusambandsins áður en Íslendingar og Færeyingar hafi stóraukið veiðar sínar. Árið 2008 hafi þjóðirnar tvær veitt mjög hóflegt magn af makríl en árið 2011 hafi veiðar þeirra numið 150 þúsund tonnum í hvoru tilfelli.

„Sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins verður að grípa til skjótra aðgerða og virkja ákvæði reglugerðarinnar í ljósi þess að viðræður um lausn deilunnar runnu út í sandinn aftur án samkomulags í London í síðustu viku,“ er ennfremur haft eftir Gallagher.

Frétt Donegaldaily.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert