„Samvinna yfirvalda og lækna um lyfjamál allt of lítil“

mbl.is/Sverrir

„Almennt virðist mér samvinna yfirvalda og lækna um lyfjamál allt of lítil, og þær ákvarðanir sem teknar eru í fílabeinsturni stjórnsýslunnar vera á góðri leið með að stefna lyfjamálum hérlendis í öngstræti miðstýringar og óhagræðis.“

Þannig kemst að orði Gylfi Óskarsson sérfræðingur í barnalækningum og barnahjartalækningum á Barnaspítala Hringsins, í ritstjórnargrein í nýjasta hefti Læknablaðsins.

„Verst er ástandið þar sem ég þekki best til af starfi mínu, í sambandi við lyf fyrir börn. Þar eru ótal brotalamir sem hafa afar neikvæð áhrif á starfsumhverfi lækna, eru til óþæginda og kostnaðarauka fyrir foreldra og geta í vissum tilfellum ógnað öryggi skjólstæðinga okkar,“ bætir Gylfi við.

Gylfi segir að úrbóta sé þörf í lyfjamálum á Íslandi. Starfsumhverfi lækna mótist ekki eingöngu af húsnæði og tækjum. Margar framfarir í læknisfræði á síðustu árum byggist nær algerlega á bættri lyfjameðferð, ýmist vegna nýrra lyfja eða rannsókna sem bæta kunnáttu lækna í notkun eldri lyfja.

„Læknisfræðin er í stöðugri þróun og læknar hafa töluvert fyrir því að fylgja þeirri þróun sem best eftir, en reka sig á síðari árum á æ fleiri hindranir í vegi þess að skjólstæðingarnir fái „fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita” eins og lög kveða á um. Margar þeirra hindrana eru mannanna verk,“ skrifar Gylfi einnig.

Hann kveður fast að orði er hann fjallar um afleiðingar reglugerðar sem heilbrigðisráðherra gaf út árið 2010 um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga við kaup á lyfjum, en í framhaldinu gáfu Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) út vinnureglur fyrir lyfjaskírteini. „Vinnureglum SÍ sem tengjast ofangreindri reglugerð með síðari breytingum hefur síðan fjölgað jafnt og þétt, og er nú svo komið að á heimasíðu SÍ er að finna 56 mismunandi skjöl um vinnureglur SÍ fyrir útgáfu lyfjaskírteina. Reglurnar eiga það sameiginlegt að takmarka réttindi lækna til að ávísa lyfjum með greiðsluþátttöku SÍ.

Reglugerðin og tengdar vinnureglur SÍ bera íslenskri stjórnsýslu ekki fagurt vitni. Þær eru ekki studdar faglegum rökum og samráð við þá lækna sem málið varðar var og er enn ekki viðhaft í nægilegum mæli. Gegnsæi skortir einnig, því óljóst er hvar ákvarðanir um nýjar vinnureglur eru teknar og hverjir fá að tjá sig um þær. Kynningu nýrra reglna er einnig ábótavant, fyrirvarar stuttir, og því gefast sjaldan tækifæri til úrbóta í tæka tíð. Ekki var kannað fyrirfram hvaða afleiðingar breytingarnar myndu hafa á störf lækna, né hvort sparnaður SÍ hefði í för með sér kostnaðarauka annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Sá kostnaðarauki er umtalsverður samkvæmt reynslu undirritaðs. Miðstýringartilburðir og skrifræðisstjórnun sem þessi eru ekki rétta leiðin til að draga úr lyfjakostnaði og bæta lyfjameðferð. Það verður best gert með öflugri fræðslu til lækna, samvinnu yfirvalda við samtök lækna og opinni umræðu,“ segir Gylfi Óskarsson.

Skorar hann að lokum á velferðarráðuneyti, SÍ og embætti landlæknis að hefja án tafar endurskoðun og einföldun á regluverki um lyfjaávísanir og skráningu lyfja í samvinnu við samtök lækna. „Núverandi ástand er ekki boðlegt, sérstaklega ekki þegar það snýr að öryggi lyfjameðferðar barna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert