Segja kröfu LÍÚ koma úr hörðustu átt

„Í fyrsta lagi þykir sjómönnum það koma úr hörðustu átt …
„Í fyrsta lagi þykir sjómönnum það koma úr hörðustu átt að útgerðarmenn krefjist launalækkunar hjá sjómönnum. Sjómenn hafa staðið eins og klettar við hlið útgerðarmanna og mótmælt harðlega auðlindagjaldslögunum sem og óútkomnu frumvarpi um stjórn fiskveiða. Rítingurinn er kominn á bólakaf í bak sjómanna. Þetta eru launin fyrir samstöðuna." mbl.is/Ómar

Stjórn og trúnaðarráð Sjómannafélagsins Jötuns mótmælir harðlega þeim málflutningi LÍÚ að sjómenn skuli taka á sig 15% launaskerðingu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Jötni.

„Í fyrsta lagi þykir sjómönnum það koma úr hörðustu átt að útgerðarmenn krefjist launalækkunar hjá sjómönnum. Sjómenn hafa staðið eins og klettar við hlið útgerðarmanna og mótmælt harðlega auðlindagjaldslögunum sem og óútkomnu frumvarpi um stjórn fiskveiða. Rýtingurinn er kominn á bólakaf í bak sjómanna. Þetta eru launin fyrir samstöðuna.

Í annan stað þykir sjómönnum nóg komið. Í dag greiða sjómenn rúmlega helming af olíukostnaði útgerðarinnar. Í dag lækkar skiptaprósentan um 10% í sjö ár ef útgerðarmaður kaupir nýtt skip. Hvað verður það næst? Lækkun skiptaprósentu vegna kaupa útgerðar á hlutabréfum?

Í þriðja lagi er það auðvitað fullkomin firra að sjómenn taki á sig 25 miljarða kostnað útgerðarinnar árlega vegna aðgerða stjórnvalda. Ef svo væri eiga útgerðarmenn að greiða sjómannaafsláttinn úr eigin vasa. Við því hafa útgerðarmenn sagt þvert nei og koma svo alveg af fjöllum þegar sjómenn neita frekari kostnaðarþátttöku.

Í fjórða lagi ættu útgerðarmenn frekar að hækka laun sjómanna og fiskverkaverkafólks. Launa-, rekstrar- og fjármagnskostnaður er nefnilega frádráttarbær frá reiknuðu auðlindagjaldi í sjávarútvegi.

Að síðustu vill stjórn og trúnaðarráð Sjómannafélagsins Jötuns brýna sjómenn um allt land til samstöðu gegn kröfum LÍÚ. Við þeim verður að bregðast að fullri hörku. Einnig minnir stjórn og trúnaðarráð Sjómannafélagsins Jötuns á að það tekur aðeins nokkrar vikur að boða vinnustöðvun á flotanum ef í hart fer,“ segir í yfirlýsingu frá Jötni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert