Bjarni glímir við „arfleifð hrunsins“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sé enn að glíma við „arfleifð hrunsins,“ eftir að hann fékk einungis um 54% stuðning í 1. sæti flokksins í Suðvesturkjördæmi. Ef hins vegar er aðeins miðað við gild atkvæði, en auðir og ógildir seðlar voru 159 talsins, hlaut Bjarni 55,54% atkvæða.

„Þetta sýnir að fólk hefur efasemdir um hann. Honum hefur ekki tekist að losa sig frá arfleifð hrunsins. Hún er svolítið að flækjast fyrir fólki,“ segir Stefanía. 

„Svo mætir fólk á kjörstað á eigin forsendum. Sumir gætu hafa verið að refsa honum fyrir að hafa stutt Icesave,“ segir Stefanía. 

Hún segir að þau skilaboð sem kjósendur í Kraganum sendi formanninum opni fyrir vangaveltur um mótframboð á næsta landsfundi.

„Margir held ég að séu ekkert sannfærðir um að hann geti leitt flokkinn og það er nokkuð  sem hann þarf að vinna í. Þetta ýtir náttúrlega undir þær vangaveltur hvort hann muni fá mótframboð á næsta landsfundi. Ef hann hefði fengið skýran stuðning, þá hefði það ýtt slíkum vangaveltum út af borðinu “
 
Hún bendir á að kjörsóknin hafi verið dræm eða um 33%. Kannski lýsir það því að fólk vilji vera á hliðarlínunni og sé ekki búið að gera upp hug sinn fyrir kosningar.

Hún ítrekar að Vilhjálmur Bjarnason sé sigurvegari prófkjörsins. Hann hafi sýnt það í verki að hann spyrji óþægilegra spurninga og að hann stilli sér upp andspænis útrásarvíkingum. 

„Hann fær góðan stuðning fyrir þá afstöðu sem hann tekur,“ segir Stefanía. 
 

Stefanía Óskarsdóttir.
Stefanía Óskarsdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert