Öllum sjómönnum Ögurvíkur sagt upp

Vigri RE er gerður út frá Reykjavík.
Vigri RE er gerður út frá Reykjavík. mbl.is/Jim Smart

Útgerðarfélagið Ögurvík hefur sagt upp öllum sjómönnum á skipum fyrirtækisins, samtals um 70 manns. Fyrirhugað er að endurráða 50 manns en um 20 missa vinnuna. Stjórnendur félagsins ætla að selja annan togarann og veiða kvótann á einu skipi.

„Þetta er ekki skemmtilegt verkefni,“ sagði Hjörtur Gíslason, framkvæmdastjóri Ögurvíkur, um uppsagnirnar. Hann sagði að margir þeirra sem hefðu fengið uppsagnarbréfið væru búnir að vinna lengi hjá félaginu, sumir áratugum saman.

„Þessi rekstur hjá okkur hefur verið þungur. Við höfum verið að glíma við stökkbreytt lán og síðan horfum við fram á að markaðir eru heldur að gefa eftir. Það má búast við að verðið haldi áfram að lækka áður en markaðir ná jafnvægi. Kornið sem fyllti mælinn var svo auðlindaskatturinn sem við fengum, en við þurfum að greiða 200 milljónir í fjórum greiðslur. Sá skattur fer síðan hækkandi í þrjú ár.

Miðað við þessa stöðu var alveg ljóst að félagið myndi rýrna og tærast upp í höndunum á okkur og við urðum að bregðast við til að geta haft þetta af,“ sagði Hjörtur.

Ögurvík gerir út togarana Vigra og Frera. Hjörtur sagði að Freri yrði seldur og Vigri yrði gerður út með tvöfaldri áhöfn. Hann sagði að ekki væri búið að selja Frera en það væru ágætir möguleikar á að selja skipið.

Hjörtur sagði ekki fyrirhugað að selja aflaheimildir í tengslum við þessar breytingar. Fyrirhugað væri að halda Vigra fast út og reyna að veiða allan kvótann á því skipi með tvöfaldri áhöfn.

Hjörtur sagði að talsverðar skuldir hefðu hvílt á Ögurvík fyrir hrun og þær hefðu stökkbreyst í hruninu. Óbreyttur rekstur stæði ekki undir háum vöxtum og hækkandi sköttum samhliða lækkandi verði á mörkuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert