Vilja friðarviðræður um Tíbet í Höfða

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þingmenn úr þremur stjórnmálaflokkum, og einn utan flokka, standa að baki þingsályktunartillögu sem felur í sér að hvetja íslensk stjórnvöld til að bjóða Höfða sem vettvang friðarviðræðna um Tíbet. Áður þurfa stjórnvöld að beita sér fyrir því að kínversk yfirvöld hefji friðar- og samningsviðræður við sérstaka sendinefnd Dalai Lama.

Fyrsti flutningsmaður er Birgitta Jónsdóttir en með henni standa að tillögunni Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Björn Valur Gíslason, Mörður Árnason, Þráinn Bertelsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Lilja Mósesdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Skúli Helgason, Björgvin G. Sigurðsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Ólína Þorvarðardóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Guðmundur Steingrímsson.

Í tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að lýsa yfir þungum áhyggjum af vaxandi ofbeldi og kúgun kínverskra yfirvalda gagnvart tíbetsku þjóðinni og hvetji til að endurmenntunarþvingunum verði hætt tafarlaust þar sem þær hafi meðal annars leitt til þess að 63 Tíbetar hafi kveikt í sér í örvæntingu síðan í mars 2011. Létust 53 þeirra ýmist í logunum eða síðar af sárum sínum.

Einnig að Alþingi fordæmi vaxandi hörku gagnvart friðsamlegum mótmælum í Tíbet. Hvetji kínversk yfirvöld til að aflétta herkví í Tíbet og til að hleypa alþjóðafjölmiðlum og alþjóðamannréttindasamtökum hindrunarlaust og án afskipta inn í landið. „Alþingi hvetur Sameinuðu þjóðirnar til að senda sendinefnd til að kanna mannréttindabrot í Tíbet og til að beita sér fyrir því að kínversk yfirvöld hefji opinberar friðar- og samningsviðræður við sérstaka sendinefnd Dalai Lama.“

Í greinargerð með tillögunni segir að Íslendingar hafi kjörið tækifæri til að sýna fram á að barátta þessarar merku þjóðar hafi náð eyrum okkar og að við bregðumst í orði og í verki við ákalli hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert