Reyna á lögmæti fyrir dómstólum

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Eggert Jóhannesson

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hyggst láta reyna á lögmæti sérstaks skatts á lífeyrisréttindi launafólks á almennum vinnumarkaði. Í ályktun miðstjórnar segir að álagning skattsins brjóti gróflega gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og dómsmál því óhjákvæmilegt.

Jafnframt hvetur miðstjórn ASÍ lífeyrissjóðina til að skoða lögfræðilega hvort forsendur eru fyrir því að fá dómstóla til að skera úr um ágreining varðandi samkomulag fjármálaráðherra við lífeyrissjóðina frá því í febrúar um þátttöku þeirra í sérstökum gjaldeyrisútboðum Seðlabanka Íslands. 

Þá mótmælir miðstjórnin harðlega áformum ríkisstjórnarinnar um að ganga enn og aftur gegn fyrirheitum um að lög um þennan sérstaka skatt á lífeyrisréttindi launafólks verði afnumin og að sá skattur sem þegar hefur verið greiddur verði  borgaður til baka. „Umrædd skattlagning lendir einungis á lífeyrisréttindum fólks á almennum markaði þar sem ráðherrar, alþingismenn og þeir opinberu starfsmenn, sem aðild eiga að opinberu lífeyrissjóðunum, njóta ábyrgðar ríkis og sveitarfélaga.“

Miðstjórnin segir að af þeirri ástæðu hafi þetta verið mikið deilumál milli Alþýðusambandsins og ríkisstjórnarinnar í lok síðasta árs, sem leiddi m.a. til þess að oddvitar stjórnarflokkanna gáfu fyrirheit um að séð yrði til þess að álagning þessa skatts hefði ekki áhrif á réttindi félagsmanna ASÍ.

Málið kom jafnframt upp við endurskoðun kjarasamninga í janúar 2012, en þá lagði ríkisstjórnin fram sérstakt minnisblað um að fyrrgreind lög yrðu afnumin og skatturinn endurgreiddur.  „Miðstjórn ASÍ telur með ólíkindum, að þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi í þrígang gefið fyrirheit um afnám þessa skatts á elli- og örorkulífeyri skuli málið enn vera í átakafarvegi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert