Sveitarfélög skapi 660 störf

3.700 atvinnuleitendum verður boðin starfstengd vinnumarkaðsúrræði.
3.700 atvinnuleitendum verður boðin starfstengd vinnumarkaðsúrræði. mbl.is/Ómar

Atvinnuleitendum sem hafa fullnýtt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tímabilinu frá 1. september 2012 fram til 31. desember 2013 verði öllum boðin starfstengd vinnumarkaðsúrræði á árinu 2013, samtals 3.700 atvinnuleitendur. Sveitarfélög munu skapa að lágmarki 660 starfstengd vinnumarkaðsúrræði (30%) á tímabilinu, ríki 220 starfstengd vinnumarkaðsúrræði (10%) og almenni vinnumarkaðurinn 1.320 starfstengd vinnumarkaðsúrræði (60%).

Þetta er meðal tillagna sem Atvinnuleysistryggingasjóður kynnti sveitarstjórnarmönnum í dag.

Markmiðið er að þessir atvinnuleitendur verði boðaðir í greiningarviðtöl og ráðgjöf hjá Vinnumálastofnun eða STARFI, vinnumiðlun og ráðgjöf ehf., á tímabilinu frá 1. desember 2012 til og með september 2013. Enn fremur muni verða leitað eftir samstarfi við einkareknar vinnumiðlanir um miðlun starfa í verkefninu.

Heildarkostnaður Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna verkefnisins er áætlaður  2,6-2,7 milljarðar króna en tillagan er lögð fram til umræðu með fyrirvara um endanlega fjármögnun og almenna þátttöku sveitarfélaga.

Ef áætlað er að 60% taki tilboði um starftengd vinnumarkaðsúrræði þurfa samtals 2.200 sex mánaða starfstengd vinnumarkaðsúrræði að vera í boði á árinu 2013.

Sveitarfélögin munu skapa 30% starfanna

Sveitarfélög munu skapa að lágmarki 660 starfstengd vinnumarkaðsúrræði (30%) á tímabilinu, ríki 220 starfstengd vinnumarkaðsúrræði (10%) og almenni vinnumarkaðurinn 1.320 starfstengd vinnumarkaðsúrræði (60%).

Samhliða verður lögð áhersla á að atvinnuleitendum verði kynntur sérstaklega sá kostur að leita sjálfir að störfum sem geta fallið undir átakið og kynna atvinnurekendum tækifærin sem felast í þessu úrræði. Sama gildir um nýráðningar atvinnurekenda á almennum vinnumarkaði innan verkefnisins.

Atvinnutengd endurhæfing

Fyrri reynsla bendir til að gera megi ráð fyrir að allt að 25% hópsins sé ekki vinnufær eða samtals 900 einstaklingar sem þurfi þar af leiðandi á frekari atvinnutengdri endurhæfingu að halda, svo sem atvinnutengdri starfsendurhæfingu hjá VIRK, starfsendurhæfingarsjóði.

Af þeim fjölda má áætla að um 380 einstaklingar eigi enn rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins og geti fengið þriggja mánaða samning um atvinnutengda endurhæfingu innan atvinnuleysistryggingakerfisins á árinu 2013. Heimilt er að framlengja samninginn um þrjá mánuði til viðbótar enda starfsendurhæfingin borið viðunandi árangur að mati ráðgjafa. Heildartíminn gæti þannig orðið samtals sex mánuði.

Á grundvelli samnings um allt að sex mánaða atvinnutengda endurhæfingu verði unnt að veita 520 einstaklingum sem ekki eru lengur tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins framfærslustyrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem nemur þeim rétti sem hann/hún átti áður innan kerfisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert