Framsal ríkisvalds krefst skoðunar

AFP

Innanríkisráðherra segir að skoða þurfi framsal ríkisvaldsins sem felst í samstarfi innan Evrópusambandsins, en ýmsum stofnunum ESB eru veittar heimildir til að taka ákvarðanir á sviði löggjafarvalds og dómsvalds sem eru bindandi fyrir aðildarríkin sem og einstaklinga og lögaðila.

Þingmaðurinn Atli Gíslason spurði Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra, út í áhrif af hugsanlegri inngöngu í Evrópusambandið á dóms- og löggjafarvald hér á landi.

Ögmundur segir samstarf innan Evrópusambandsins ganga lengra en hefðbundið ríkjasamstarf. Stofnunum ESB, s.s. Evrópuþingsins og dómstóls ESB, séu veittar heimildir til að taka bindandi ákvarðanir fyrir aðildarríkin. „Slíkt framsal ríkisvalds krefst skoðunar á ákvæðum stjórnarskrárinnar er varða framsal ríkisvalds.“

Þá vísar ráðherra í svar forsætisráðherra við annarri fyrirspurn en þar kemur fram að  aðildarviðræðurnar feli í sér ítarlega skoðun á íslenskri löggjöf og samanburði hennar við löggjöf og regluverk Evrópusambandsins. „Samninganefnd skipuð af utanríkisráðherra er aðalsamningamanni til ráðgjafar og stuðnings, en sérstakur samningahópur er starfandi sem er til ráðgjafar um öll lagaleg málefni sem aðalsamningamaður eða einstakir samningahópar telja nauðsynlegt að afla álits á.“

Jafnframt að samningahópurinn hafi unnið að samantekt varðandi álitamál um stjórnarskrárbreytingar, þar sem finna má umfjöllun um breytingar á stjórnarskránni er varða heimildir til framsals ríkisvalds.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert